Fávitinn : skáldsaga í fjórum hlutum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986

Um þýðinguna

Skáldsagan Idiot eftir Fjodor Dostojevskíj í þýðingu Ingibjargar.

Kom út í tveimur bindum árin 1986-7. Endurútgefin 1990.

Úr Fávitanum

Maðurinn í hettusláinu var ungur, tuttugu og sex eða tuttugu og sjö ára, rúmlega meðalmaður á hæð, með afar ljóst og mikið hár, kinnfiskasoginn með þunnt, niðurmjótt og hérumbil hvítt skegg. Augu hans voru stór, blá og íhugul, í augnaráði hans var eitthvað blíðlegt en um leið þungt, eitthvað af þeim einkennilega svip sem nægir sumum til að giska á strax við fyrstu sýn að viðkomandi sé haldinn niðurfallssýki.

(I s. 6)

- Jæja, það kom sér þá vel að ég bauð yður ekki gistingu og hef ekki í huga að bjóða yður hana. Og leyfið mér, fursti, að koma þessu á hreint í eitt skipti fyrir öll: þareð við höfum nú komið okkur saman um að ættartengsl séu engin milli okkar - þótt mér væri að sjálfsögðu heiður að því - þá leiðir af sjálfu sér að . . .

 - Að mér ber að standa upp og fara? sagði furstinn um leið og hann stóð upp og hló meira að segja glaðlega, þrátt fyrir þá erfiðu aðstöðu sem hann var augljóslega kominn í. Ég verð að segja, hershöfðingi, að þótt ég viti nákvæmlega ekkert um siði og venjur hér eða yfirleitt hvernig fólk lifir hér um slóðir, þá grunaði mig einmitt að þetta færi svona hjá okkur, einsog það hefur nú farið. En hvað um það, kannski var það nauðsynlegt . . . Þið svöruðuð heldur ekki bréfinu frá mér . . . Jæja, verið þér sælir og afsakið að ég skyldi trufla.

 Svo blíðlegt var augnaráð furstans á þessari stundu, svo fjarri fór því að í brosi hans vottaði fyrir einhverju sem hugsanlega gæti verið dulin andúð, að hershöfðinginn tók allt í einu viðbragð og leit á gest sinn einhvernveginn öðruvísi en áður; þessi breyting á augnaráði hans varð í einni svipan.

 - Sjáið nú til fursti, sagði hann og rödd hans var breytt. Þegar á allt er litið þekki ég yður alls ekki, en það er hugsanlegt að Lísaveta Prokofjevna vilji fá að sjá mann sem ber sama ættarnafn og hún . . . Dokið við, ef þér viljið, og ef þér hafið tíma.

 - Ó, ég hef nægan tíma; ég ræð tíma mínum algjörlega sjálfur, sagði furstinn og lagði samstundis hatt sinn, mjúkan með kringlóttum börðum, á borðið. Ég verð að játa að þessu hafði ég einmitt reiknað með, að Lísaveta Prokofjevna myndi kannski eftir bréfinu frá mér. Meðan ég beið eftir yður frammi áðan hafði þjónninn yðar grun um að ég væri kominn sökum fátæktar, til að biðja um ölmusu; ég tók eftir því, og líklega hafið þér gefið strangar fyrirskipanir þar að lútandi, en ég segi það satt að ég er alls ekki kominn hingað þeirra erinda, heldur eingöngu til að komast í samband við fólk. En nú fer ég að halda að ég hafi truflað yður, og það veldur mér áhyggjum.

 - Sjáið nú til, fursti, sagði hershöfðinginn og brosti glaðlega. Ef þér eruð í raun og veru sá sem mér sýnist þér vera, þá verður líklega ánægjulegt að kynnast yður.

(I s. 28-29)

 - Bara að Guð gefi að hann verði ekki einsog þú, Ívan Fjodorovits, braust loks einsog sprenging upp úr Lísavetu Prokofjevnu. Bara að skoðanir hans og dómar verði ekki einsog þínir, Ívan Fjodorovits; að hann verði ekki durtslegur durtur einsog þú, Ívan Fjodorovits . . .

 Ívan Fjodorovits flúði þegar í stað, en Lísaveta Prokofjevna róaðist eftir sprenginguna. Af sjálfu leiðir að þetta sama kvöld var hún óvenju umhyggjusöm, hljóðlát, blíð og tillitssöm við Ívan Fjodorovits, durtslega durtinn sinn hann Ívan Fjodorovits, því að hún hafði elskað hann og jafnvel verið ástfangin af honum alla ævi og það vissi Ívan Fjodorovits mætavel sjálfur og fyrir það bar hann takmarkalausa virðingu fyrir Lísavetu sinni Prokofjevnu.

 En stærsta áhyggjuefni hennar var Aglaja.

 Hún er nákvæmlega, nákvæmlega einsog ég, lifandi eftirmynd mín að öllu leyti, sagði Lísaveta Prokofjevna við sjálfa sig, frekur og óþægur púki! Níhilisti, sérvitringur, vitfirringur, vond, vond, vond! Ó, drottinn minn, hvað hún verður óhamingjusöm!

 En sem fyrr segir var nú sólin komin upp og um stundarsakir lýsti hún upp og mildaði alla tilveruna. Í hartnær mánuð fékk Lísaveta Prokofjevna hvíld frá öllum áhyggjum sínum. Í tilefni af væntanlegu brúðkaupi Adelaidu var farið að tala um Aglaju í samkvæmum, og Aglaja hegðaði sér svo vel, var í svo góðu jafnvægi, svo skynsöm, svo sigurviss, dálítið stolt, en það fór henni einmitt svo vel! Svo ljúf og vingjarnleg við móður sína í heilan mánuð! (Vissulega þarf að athuga nánar þennan Jevgení Pavlovits, það þarf að komast til botns í honum, og Aglaja virðist heldur ekki hafa meiri samúð með honum en öðrum!). Hvað sem öðru leið var stúlkan allt í einu orðin svo dásamleg - og hvað hún var falleg, drottinn minn, hvað hún var falleg, fegurri með hverjum deginum sem leið! Og svo . . .

 Og svo þurfti þetta furstagrey allt í einu að birtast, þetta fávitaræksni, og aftur fór allt úr skorðum, allt upp í loft!

(II s. 11-12)