Falsarinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Úr Falsaranum:

 Það var þennan eftirminnilega sunnudag, næstan á eftir Marteinsmessu og undir þekjuglugginum í Skógum á Þelamörk, sem hann tók fram aðra pappírsörkina prestsins. Hann andvatt hana upp á trafakeflið sem hékk í baðstofunni, festi síðan niður á fjölina með nálum. Ríkisbankóseðilinn, sléttan og óbrotinn með sínu flúri og fagra lesi, lagði hann ofar á fjölina og hélt niðri með skeifubroti úr kistli sínum. Aldrei hafði hann séð haglegar dregið N. Það var með þremur undnum teinungum, úr þungum drætti í mjög fínlegan í bugunum. Vísast var það gert með því að beita fyrst pennanum beint en síðan æ meira á ská með léttari hendi. Þetta hafði hann reynt í Myrernes Udtapning prestsins, en þá höfðu komið á smá hlykkir þegar pennanum var léttast beitt. Síra Árni hafði ekki tekið eftir því; hann var heldur ekki soddan maður. Á líkskriftinni í Möðruvallakirkju sem hann hafði reynt við í vor var ekkert af slíku, allt jafnstilka, krúsurnar líka. Lán hans var það að hann fékk enn að halda stálpennanum; með fjöðrum sínum hefði honum ekki dugað að reyna slíkt.
 Hann blekaði pennann og ætlaði að reyna við N-ið og tölustafina efst, No 67023, en brast kjark. Hann yrði að búa sér öðruvísi í haginn, ein mistök eyðulegðu alla örkina. Hvað gæti hann notað? Hér var það sem ævinlega þegar hann ætlaði sér einhvern hagleik: verkfæri voru engin til. En sýllinn móður hans? Hann fór í tínuna hennar á veggsyllunni og fann hann. Hún notaði hann til að stinga fyrir nál á þykku skinni, oddgóður en of stuttur. Hann fann dálítið traf í tínunni og batt um skósýlinn efst svo hann lægi betur í hendi. Kötturinn hafði stokkið niður á gólf og nuggaði sér við hurðina, vildi út.
 Þorvaldur settist aftur við fjölina og byrjaði að marka fyrir tölustöfunum efst. Hann bar fjölina skáhallt upp í birtuna. Það mátti vel greina förin eftir sýlinn. Og þá N-ið. Hægri breiðstilkurinn var dreginn nær lóðrétt en hliðstilkarnir með skáa, út í þessa fínu vindinga þar sem drátturinn dó út. Hann reyndi þetta fyrst á fjölinni, nokkrum sinnum, síðan á örkinni. Það var rétt eins og hann lærði þetta, rétt eins og hann væri um stund maðurinn sem dró það í öndverðu. Hvernig voru slíkir menn? Var þetta vinnan þeirra? Að skrifa og flúra? Sitja þeir líka með fjöl í baðstofunni eins og hann, eða hafa þeir borð, kannski í sérstakri skemmu með gluggi yfir? Þeir hljóta að eiga mikinn pappír og má vera marga penna, misfína. Misþykkan og misþéttan pappír? Hann tók með tveim fingrum á bankóseðlinum og síðan undir hornið á örkinni. Jú, örkin var úr þykkara efni og grófari gerð. Ekki mátti hann drepa af sér daginn með þesslags þenkingum.
 Komið var fram á hádegi þegar hann hafði markað fyrir letrinu, en samt varð hann að bera fjölina upp í birtuna til þess að greina rispurnar. Hann nuggaði saman höndunum, sperrti fingurna, því nú var komið að sjálfri áhættunni, mesta vandanum, penna og bleki.

(s. 115-16)