Fallin spýta

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Myndir Brian Pilkington

Úr Fallinni spýtu:

 Lilla vissi að þegar pabbi sagði „Guðbjörg mín“ dugðu engar mótbárur.
 Hún settist á blábrúnina á stóra hægindastólnum. – Hvað hefur komið fyrir, hugsaði hún. – Ég hef ekki gert neitt af mér, eða.... Guð ætli þau viti....
 „Mamma, ég er búin!“ æpti Palla á klósettinu.
 „Ég var að fá bréf frá Ameríku,“ sagði pabbi hennar og tók upp bréf með mörgum frímerkjum á.
 „Þú ert alltaf að fá bréf,“ sagði Lilla og stóð upp.
 „Ég er lengi búinn að bíða eftir þessu bréfi. Það er öðruvísi en öll hin,“ sagði pabbi.
 Lilla settist. „Og hvað stendur í því?“
 „Mér er boðið að koma til Ameríku og vinna þar í nokkra mánuði,“ sagði pabbi.
 „Ameríku,“ Lilla saup hveljur. „Hvenær ætlarðu að fara?“
 „Það er nú það,“ sagði mamma alvarlega.
 „Mig langar til að taka mömmu þína með,“ sagði pabbi.
 „Mömmu?“ Lilla gapti. „Hver á að passa okkur?“
 „Það er nú það,“ sagði mamma enn alvarlegri.
 Þau þögðu öll í smástund.
 „Ég veit,“ Lilla ljómaði, „Við förum bara öll: Ég, þið og tvíburarnir!“
 „Það kemur ekki til mála, Lilla mín. Þetta er mjög dýrt ferðalag. Ég get alls ekki farið með alla fjölskylduna,“ sagði pabbi.
 „Pabbi þinn verður allan daginn á spítalanum og ég ætla að reyna að læra meira,“ sagði mamma.
 „Læra meira?“ hváði Lilla. „Þú kannt alveg að greiða og setja permanent.“
 Mamma hló. „Ég veit það en mig hefur alltaf langað til að læra meira. Veistu að það er hægt að læra allt mögulegt á námskeiðum í Ameríku. Mér datt í hug að bæta snyrtingu við hárgreiðsluna. Þá hef ég úr meiru að velja.“
 - Úr meiru að velja! Eins og væri ekki nóg að hafa alltaf gangherbergið fullt að kerlingum með krullur ... læra meira.... Svo fékk Lilla kökk í hálsinn. Henni fannst hún vera ein í heiminum og augun fylltust af tárum.
 „Og hvar eigum við að vera?“ röddin var hjáróma eins og hún kæmi í gegnum langt rör.
 „Það er nú það,“ sagði mamma hennar enn og þagnaði.
 „Jú, sjáðu til vina mín,“ sagði pabbi. „Systur hennar mömmu ykkar ætla að hugsa um ykkur. Tvíburarnir verða hjá Önnu og þú ferð til Bellu.“
 „Nei og aftur nei, ég fer ekki til Bellu frænku!“ hrópaði Lilla.
 „Og af hverju ekki ef mér leyfist að spyrja?“ pabbi var spyrjandi.
 „Af því að hún er leiðinleg og Gummi litli er frekjuskjóða,“ sagði Lilla reið.
 „Það virðast nú fleiri vera frekir en hann Guðmundur litli.“ Pabbi var alvarlegur.
 „Hann er mesta frekjuskjóða í heimi og ég fer ekki fet.“ Lilla var samanbitin.
 „Lilla mín, eigum við ekki að tala um þetta í ró og næði? Bella hefur alltaf verið góð við þig.“ Mamma var alvarleg.
 „Ég fer aldrei til Bellu frænku, aldrei, aldrei....“ Lilla stóð upp og stikaði fram gólfið. Hún skyldi sýna þeim.... Allt í einu snarstansaði hún, sneri sér við og brosti. „Ég veit, ég fer til afa og ömmu á Austurfirði.“

(s. 8-10)