Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997

Fyrra bindið í skáldævisögu Guðbergs. Hið síðara er Eins og steinn sem hafið fágar frá 1998. Bækurnar komu saman út í einu bindi sem Bernskan 2008.

Úr Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar

Þú átt ekki lengur heima hér.

Móðir mín hrökk í kút. Bernska hennar var skyndilega á enda við að heyra þessi orð. Hún fann það einhvern veginn á sér. Þær námu staðar, stóðu kyrrar og biðu, næstum að sligast undir þunganum frá saumavélinni.

Þú átt ekki lengur heima hér, endurtók hann lægra í þetta sinn og horfði rólega á ömmu.

Hún svaraði engu en hann gekk burt og virti hvoruga viðlits.

Nú, hvað er þetta eiginlega? spurði amma út í loftið.

Ég veit það ekki, svaraði móðir mín eins og spurningunni væri beint til hennar.

Af þessu fann amma að hún var ekki lengur til fyrir manninum sínum en móðir mín fann að hún var hvorki til fyrir föður sínum né móður. Systkinin létu ekki á sér kræla. Eflaust var hún ekki heldur til fyrir þeim eða heiminum, svo hún sökk niður í sitt eigið djúp með sama hætti og börn gera til að reyna að bjarga sér þar sjálf á sundi í róti tilfinninganna. Þau búast ekki við neinu frá öðrum.

Það var sama hvað móðir mín sagði margoft frá þessu, liturinn virtist hverfa úr augunum og maður sogaðist í fylgd með henni í einsemd og tóm varnarleysis sem engum nema foreldrum er lagið að gróðursetja í tilfinningalíf barna sinna. Þau virðast gera þetta ósjálfrátt, af eðlishvöt fremur en ráðnum hug, og svo virðist sem eðlilegur gangur lífsins sé óhugsandi án þess. Venjulega fer þessi sáning fram á þeim aldri þegar fullorðið fólk hefur gleymt einmanaleikanum í bernsku eða varnarleysi sínu og tilfinningunni fyrir tómleika sem greip það þegar foreldrar þess fóru nákvæmlega eins að við hina eilífu sáningu foreldra í sál barna. Þess vegna virðist það vera lögmál að við mennirnir hvorki megum né getum lært af eigin reynslu og forðast að feta í fótspor erfðanna, heldur hið gagnstæða - það að láta reynsluna sér að kenningu verða virðist stríða gegn mannlegu eðli.

(s. 146-147)