Ert þú Blíðfinnur? : ég er með mikilvæg skilaboð

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 

Úr Ert þú Blíðfinnur? Ég er með mikilvæg skilaboð:


Engumlíkur kynnist bókavörðunni og kemst að því að það er ekki nóg að skilja orðin til að fá botn í hlutina.

Það er komið fram undir kvöld. Djúpt inni í skóginum, ekki langt frá þeim stað þar sem leitarflokkurinn Hátt og lágt er staddur þessa stundina, er einhver að stelast til að lesa þessa bók, reyndar ekki í fyrsta skipti, og er rétt í þessu að ljúka 14. kafla.
“Ekki gott,” heyrist tautað, “ekki gott,” og í þeim töluðu orðum er bókinni skellt aftur og henni stungið undir felugrein. “Að hjálpa til þarf,” er sagt stundarhátt um leið og skimað er niður eftir skógarstígnum sem dvergarnir í bókinni hafa verið að skakklappast eftir. Og af því að Söðull, Vöðull og Engumlíkur eru öðrum persónum hlýðnari í sögunni láta þeir þennan áhyggjufulla lesara ekki bíða lengi eftir sér en birtast inn á milli trjánna einmitt ... núna.
 “Eruð Hátt lágt leitarflokkurinn og þið?”
“Ha?” Hvorki Söðull, Vöðull né Engumlíkur gátu ráðið í þessa gátu þar sem þeir snarsnerust hvor um annan. Og hver var að tala? Það var orðið erfitt að greina umhverfið í ljósaskiptunum og ekki laust við að spennuhrollur færi um leitarflokkinn sem gat allt eins verið umkringdur af illum öflum. Jafnvel útlendingum, ef marka mátti spurninguna.
 “Að ég koma mikilvægum skilaboðum til ykkar þarf.”
 “Hver ert þú og hvaða tungumál talar þú?” svaraði Engumlíkur að bragði, eins höstuglega og hann gat og reyndi að horfa nokkuð ákveðinn í allar áttir í senn. Hann varð að sýna þessum ókunna aðkomudóna að hann léti ekki slá sig svo auðveldlega út af laginu.
 “Ég og sama tala tungumál þið!” var svarað og nú sá Engumlíkur hvaðan röddin barst. Uppi í ógnarstóru tré sat grindhoruð bókavarða með kisugleraugu, umkringd vandlega númeruðum og merktum ritum sem hún var að raða á mismunandi greinar af mestu nákvæmni.

(s. 88-90)