Engar smá sögur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1996
Flokkur: 

Úr Engum smá sögum:

Basel-tölvan

(Úr nýjasta testamentinu)

EN JARÐARBÚAR GÁTU allir talað saman því að flestir skildu þeir tungumál margra þjóða. Og svo bar við að allir heimsins fremstu fræðimenn, í öllu því sem hægt var að fræðast um, komu saman á eina ráðstefnu í Basel í Sviss og réðu ráðum sínum. Og þeir sögðu hver við annan: Ekki þýðir lengur sundrung þessi því að vér erum jú öll af sömu reikistjörnu. Gott og vel, vér skulum vinna saman að framförum okkar en ekki hver í sínu horni. Og þeir sögðu: Gott og vel, vér skulum byggja oss gríðarstóra tölvu og skulum vér fylla hana af allri þeirri visku og fróðleik sem maðurinn hefur öðlast og mun hún síðan sjálf reikna út öll lögmál og leyndarmál sem vér höfum ekki þegar lokið upp sjálfir. Tölvu þessa kölluðu þeir Jahve vegna þess að hún átti að vera alvitur. Þá steig Drottinn niður til þess að sjá ráðstefnuna og tölvuna sem mannanna synir voru að fylla. Og hann sá að þetta var stærsta fyrirtæki mannanna og brátt gætu þeir fengið svör við öllum heimsins spurningum. Og Drottinn mælti: Sjá dramb mannanna sona að halda tölvu vera almáttuga, en hún er aðeins vél sem gengur eftir lögmálum sem ég hef sjálfur saman sett. Og Drottinn mælti: Gott og vel, stígum niður og ruglum lögmálum þeirra svo að enginn skilji framar nokkur lögmál, látum þau koma og fara með árstíðunum og vera jafn óútreiknanleg og þær.

(s. 59)