Elskar mig, elskar mig ekki

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Um söguna

Titilsagan í smásagnasafni með sextán sögum fyrir ungt fólk eftir jafn marga höfunda frá átta málsvæðum á Norðurlöndum. Sögurnar eru allar skrifaðar sérstaklega fyrir þessa bók sem unnin var í samstarfi átta norrænna útgefenda: Milik á Grænlandi, Bókadeildarinnar í Færeyjum, Samlaget í Noregi, Art People í Danmörku, Opal í Svíþjóð, Tammi í Finnlandi, Davvi Girji á samíska málsvæðinu og Forlagsins á Íslandi.

Sögurnar fjalla allar um að vera ástfanginn, vera elskaður og þora að fylgja hjarta sínu. Hér er krifað um ástina í allri sinni fjölbreytni fyrir lesendur frá 13 ára aldri.

Böðvar Guðmundsson íslenskaði sögur allra erlendu höfundanna. Sögur finnsku, samísku og grænlensku höfundanna voru þó fyrst þýddar á millimál. Norræna ráðherranefndin styrkti þýðingu sagnanna.

Úr sögu Jónínu, „Elskar mig, elskar mig ekki“

Hún er ekki á Facebook, fer mjög sjaldan á spjallrásir og er svakalega löt að svara tölvupósti. Þetta er eiginlega eini gallinn við hana.

Þegar ég kvarta undan þessu segist hún ekki nenna að vera mikið í tölvunni. Hún sé ekki þannig týpa. Samt veit ég að hún er frábær penni. Ég sá það nú á meðan hún bloggaði. Fyrir nokkrum vikum lokaði hún bloggsíðunni hins vegar upp úr þurru og hún yppir bara öxlum þegar ég spyr af hverju.

Þegar hún bauð sig fram í stjórn nemendafélagsins benti ég henni á að hún yrði að vera með heimasíðu. Þannig næði hún best til allra í skólanum. Enda voru allir hinir frambjóðendurnir strax komnir á fullt að kynna sig á netinu. En hún er alveg dásamlega þrjósk og setti stút á munninn í hvert skipti sem ég nefndi þetta við hana. Svo ég neyddist til að hanna heimasíðu fyrir hana. Ég stofnaði líka stuðningshóp á Facebook og prentaði út miða með slagorðum sem ég dreifði um allt. Hvað gerir maður ekki fyrir kærustuna sína?

Þess vegna kom það mér algjörlega á óvart að hún skyldi verða svona öfugsnúin. Ég sem var búinn að útvega henni heilan helling af atkvæðum.

Þetta var í fyrsta skipti sem ég hef séð hana virkilega reiða. Hún öskraði á mig eins og ég hefði eyðilagt eitthvað fyrir henni. Sem ég hafði sko ekki gert. Ég hafði einmitt fengið ofboðslega góð viðbrögð við heimasíðunni og fullt af liði hafði skráð sig í stuðningshópinn. Þegar hún tók æðiskastið varð ég því svolítið sár - en bara rétt fyrst. Hún er svo falleg að það fer henni meira að segja vel að vera öskuvond.

Það að auki fattaði ég þetta á eftir. Hana hafði bara langað til að sýna mér að hún gæti náð kjöri hjálparlaust. Þetta var ekkert flóknara. Hún hélt örugglega að ég yrði ekki eins hreykinn af henni ef ég hefði þurft að aðstoða hana í kosningabaráttunni. En ég á eftir að springa úr monti þegar niðurstöðurnar verða kynntar. Ég er viss um að hún verður kosin og á eftir að standa sig æðislega.

Eitt verð ég samt að viðurkenna. Mér fannst óþarfi af henni að láta svona út af ljósmyndunum. Það er ekkert bannað með lögum að taka myndir af fólki, eins og hún sagði. Svo var hún heldur ekki berbrjósta eða full eða neitt þannig, eins og maður sér oft á netinu. Þetta var mjög smekkleg heimasíða með flottri grafik og alls konar hrósi og stuðningsyfirlýsingum. Það hefði nú verið frekar hallærislegt að hafa engar ljósmyndir af manneskjunni sem verið var að kynna!

Ég hafði líka mörgum sinnum beðið hana um að gefa mér myndir af sér. Hún gleymdi því bara alltaf. Svo ég neyddist til að taka myndir sjálfur.

(s. 44-46)