Elín Helena

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Uppfærslur:

Leikfélag Reykjavíkur, Borgarleikhúsið 1993
Tamperen Teatteri, Tampere, Finnlandi 1997

Úr Elín Helena (1993):

Rikki: Veistu? Ég hef séð himinn og jörð ... snertast. þau tókust í hendur, fléttuðu fingur sína saman. Svona. Sko! Og þau bráðnuðu saman. það var svo heitt! Svo heitt. Himinninn sendi hita í jörðina og þaðan steig hann upp sem vatn. Sem raki. Gljáandi af sól. það er kallað tíbrá, þessi ástarfundur himins og jarðar. Ég var þar. Varð partur af því. Og hitinn svo megn að maður kemst á annað tilverustig, þar sem allt stendur áhaus. Og þögnin í sólarbrækjunni. þögnin er svo ofboðsleg, það gnestur í henni; endurómar um allan skóginn. Og maður heldur að það sé óvinurinn. þessi djöfullegi óvinur að laumast aftan að manni. EN þAÐ ER EKKI HANN! þAÐ ER ALDREI HANN! það er bara þögnin. Og þessi blautlegi ástarfundur milli himins og jarðar. Ég var þarna. Sá þetta. Sofnaði við það. Þarna, þar sem að vera alsgáður var að vera ölvaður. Af blóði og rjúkandi búkum. þar sem glýja í augum var eðlilegt ástand. þar sem bein manns urðu duft og þreytan hélt líkamanum uppi. þar sem að vera maður var að vera skepna. Veistu hvað ég meina? Ha? þú verður að vita hvað ég meina, annars ... annars hefur þetta engan tilgang, engan ... engan tilgang ...
Elín Helena: Ertu að tala um stríðið?
Rikki: Hvaða stríð? Ég er að tala um guð!
Elín Helena: Guð?
Rikki: Guð hefur ástríðu. þess vegna er hann guð. Vissirðu það?
Elín Helena: Nei, ég vissi það ekki ...
Rikki: Nei. þú ert heldur ekki í heimspekinni. Hann er svo ... svo ástríðufullur.
Elín Helena: En þú sagðir áðan að hann væri kaldur.
Rikki: Já. Tilfinningalaus.
Elín Helena: Hvernig getur hann þá haft ástríður?
Rikki: það er einmitt málið, sjáðu. það er stóra mótsögnin við hann. Snjallt hjá honum, finnst þér ekki? Ég þekki engan sem fattar þetta. Hann er svo yfirgengilega karakterlaus að maður tekur eftir því. Sko! Enn ein mótsögnin. það er ástríða hans að vera kaldur og tilfinningalaus. Og ef maður hefur ástríðu ... sjálfur... Eða, ef einhver jarðneskur maður hefur ástríðu, sjáðu, þá er hann guð. Guð. Hugsaðu þér! Að vera guð. Hefur þú enga ástríðu?
Elín Helena: Ég ... ég veit það ekki ...
Rikki: Ég hafði það. Ég var einu sinni guð.
Elín Helena: Ég get vel trúað því ...
Rikki: Helena hefur sagt mér frá því, en það er eins og það hafi verið einhver annar, eins og hún sé að lýsa draumi ...
Elín Helena: þið voruð ... elskendur ... ?
Rikki: það er bara eitt sem ég get ekki skilið.
Elín Helena: Hvað er það?
Rikki: Veistu hvers vegna fólk er að lifa? Ha? Veistu það? Ég veit það ekki. Mér er fyrirmunað að fá botn í það. Ha? það geta nefnilega allir orðið guð. Bara ef þeir vilja. Ef þeir elska.
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Hvers vegna deyr fólk ekki bara? Ha? Úrþví það er svona ástríðulaust? Ég væri löngu dauður ef ég væri ekki svona bæklaður. Löngu búinn að farga mér. Nei, fólk er svo yfirgengilega ástríðulaust. Mig langar til að hrista það stundum, gá hvort það hrekkur ekki í samband. það er ekkert varið í þetta öðruvísi. Ha? Enginn tilgangur ef ástríðurnar vantar. Finnst þér það ekki?
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Er þetta erfið spurning hjá mér?
Elín Helena: Ja ...
Rikki: Geturðu ekki svarað?
Elín Helena: það eru til svo mörg svör, ég ...
Rikki: Er það? Eru til mörg svör við einni spurningu? Skrýtið. Gefðu mér dæmi ...
Elín Helena: Dæmi? Dæmi um svar?
Rikki: Já.
Elín Helena: Kannski ... kannski deyr fólk ekki og heldur áfram að lifa ... vegna þess að það hefur alltaf eitthvað fyrir augunum. Eitthvað ...
Rikki: Hvernig þá?
Elín Helena: það er alltaf eitthvað í sjónmáli.
Rikki: Eins og hvað?
Elín Helena: Bara ... eitthvað sem dregur það áfram ...
Rikki: Svona eins og agn?
Elín Helena: Já! Eins og agn. En það er — alltaf — utan seilingar, sama hvað við reynum að nálgast það.
Rikki: (Hlær). þetta er gott! þetta er gott hjá þér ... (Hættir að hlæja). Alltaf utan seilingar! Helvíti gott hjá þér. En agnið er blekking, er það ekki? (Dvöl. Ekkert svar). Miklu betra að hafa ástríðu, held ég. Já. Sko, þá lætur maður ekki blekkjast. þá bítur maður ekki á agnið. Ertu mát eða ertu patt?
Elín Helena: Ég ...
Rikki: Hvað sagðist þú heita? þögn.
Elín Helena: (Varlega). Pabbi? (þögn). Ég er Elín Helena. Dóttir þín.
(þögn. Hann horfir bara á hana). Dóttir þín. Elín birtist. Stendur þögul álengdar. Fylgist með. Hann sér hana. Hann á í mikilli baráttu. Hann deplar augunum ákaft, eins og hann hafi misst stjórn á augnlokunum. Hendurnar byrja að titra. Hann ber þær upp að höfðinu til að hemja þær. Strýkur gegnum hárið. Nuddar lófunum við andlitið eins og hann sé nývaknaður. Loks.
Rikki: Dóttir mín er dáin. það er ekki fallegt af þér að vera að minna mig á það. Hún dó.
Elín Helena: Nei. Hún ...
Rikki: Hún er dáin segi ég!
Elín Helena: Nei ... (Hann ætlar að segja eitthvað). Bíddu! Bíddu við ... þú sagðir mér sögu þegar ég var lítil. Oft. Ég vildi heyra þessa sögu aftur og aftur. Manstu hana? (Hann starir bara á hana). Hún var um manninn sem var svo einmana. (Hún bíður eftir viðbrögðum hans. Engin viðbrögð). Hann settist niður á strönd og fór að bíða eftir ástinni. En hún kom aldrei. Manstu ekki? (Hann starir bara). Og hann sat þarna lengi, lengi, hár hans óx og varð grátt og féll niður á herðar hans, og hann sat með lokuð augu alveg þangað til hjarta hans sprakk af harmi. En þá opnaðist brjóst hans. Og það komu fuglar af hafi, heil hersing, og þeir flugu í gegnum hann. Inn í brjóst hans og út um bakið. þú sagðir að það væri tíminn að líða. En svo ... allt í einu ... opnaði hann augun, brjóst hans lokaðist og einn fuglinn lokaðist þar inni. Hár mannsins varð aftur dökkt og fuglinn ólmaðist í brjósti hans — og hvorugur dó.
Rikki: Var hann þá hættur að vera einmana?
Elín Helena: Já.
Rikki: þetta er skemmtileg saga.
Elín Helena: Ég vildi aldrei heyra aðra sögu.