Ekkert slor

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1984
Flokkur: 

Úr Ekkert slor:

Léttbátarnir þeystust hver af öðrum milli skips og bryggju og fylltu þröngar götur bæjarins af trítlandi túristum með dýrar myndavélar. Þeir flæddu yfir allt einsog engisprettur, og ekki leið á löngu uns fyrstu sýnishornin stungu höfðinu inní frystihúsið, enda var það í erlendum ferðahandbókum auglýst sem eitt hið fremsta sinnar tegundar á landinu. Það var því ekki að sökum að spyrja, fólkið varð samstundis heltekið slíkum skoðunarlosta að engu var líkara en þetta fiskverkunarhús norður undir heimskautsbaug væri eitt af heimsundrunum sjö, og réðst fólkið í hrönnum til inngöngu.
Fyrst kom það náttúrulega í móttökuna og rak augun í hrúgu af þorskum sem Hemmi hafði sturtað á bandið. Þetta víðreista fólk utanúr hinum menntaða heimi hafði þá aldrei stungið augunum í vesælan þorsk; torsk, cod, kabeljau, morue; hvað þá snert hann, og varð alveg frá sér numið þegar það stóð nú frammi fyrir heilum kirkjugarði af þessari makalausu skepnu. Það fór að babbla saman á einhverju furðumáli sem fólk í fiski skilur eðlilega ekkert í, benti og pataði, leit á Hemma, einsog það vildi spyrja hvort óhætt væri að koma nær, og Hemmi setti upp feimnislegan hlutleysissvip. Þá nálgaðist fólkið hikandi, líkast því sem það óttaðist að fiskarnir öðluðust skyndilega líf, stykkju á það og bitu. En ekkert slíkt skeði og einstöku maður gerðist jafnvel svo brattur að pota með vísifingri í eitt líkið, en pjattrófan var ríkari í flestum og þeir létu vera að kryfja þessa fisktegund sem þorpsbúar veiddu svo mikið af, tóku kannski fyrir nefið í staðinn, fitjuðu að minnsta kosti dálítið uppá það, enda fýlan megn fyrir óvana og blandaðist illa fínum ilmvötnum og rakspírum. Svo fóru sumir að munda myndavélar og þegar Hemmi sá það þreif hann vænan golþorsk og hélt á loft samkvæmt hinni klassísku íslensku fiskauppstillingu. Þetta kunnu túrhestarnir vel að meta, smelltu grimmt af og brostu hlýlega í þakklætisskyni. Þá hljóp Hemmi eftir steinbít, en ljósmyndurunum leist ekkert á hann.
Þessu undarlega fólki, vopnuðu alpahúfum og myndavélum, þótti ekki nóg að sjá þorsk og steinbít og þræddi stigana uppí vinnslusalina. Dolli yfirverkstjóri kinkaði kolli til merkis um að skoðunarferð væri heimil – hann hafði skilning á gildi auglýsingarinnnar – og heimsfólkið streymdi inn. Það vall um pökkunarsalinn, virti fyrir sér sköpulag íslenskra kvenna og gamall kall með hornspangagleraugu og gull í tönnum tók nærmynd af roðnandi Boggu. Svo flæddi hinn erlendi kynþáttur alla leið inn í hávaða vélasalarins.
Þar þótti gestunum greinilega margt merkilegt að sjá, en af einhverjum ásæðum stönsuðu margir þeirra fyrir framan Valda gamla á hausaranum til að taka mynd. Gamli maðurinn var því allt í einu orðinn fyrirsæta. Hann var kannski ekki beint upplitsdjarfur eða gleiðbrosandi, ekki einu sinni nýsnýttur, enda hafði hann aldrei setið námskeið hjá módelsamtökunum. Ef til vill þótti útlendingunum hann hafa séríslenskt yfirbragð; allavega langaði þá að koma honum fyrir í albúmi heima hjá sér.
Á endanum fengu hinir erlendu gestir sig fullsadda af lystisemdum frystihússins og tíndust útí súldina með ofurlitla fisklykt í fötum. Úr gluggum hússins mátti sjá þá spranga milli aldagamalla leiða í garði dauðans og taka myndir hver af öðrum við beð Jóns Jónssonar, himinlifandi yfir að hafa komist yfir svona flott mótíf. Og Jón Jónsson glotti tannlausum skoltum í gröfinni meðan smellt var af, einsog hann héldi sig komast á filmuna.
Þeir sem stálust í pásu útá svalir seinnipart dags, sáu hvar léttbátarnir ösluðu með ferðafólkið útí lystisnekkjuna aftur, með myndavélarnar sínar fullar af minningum um þetta einkennilega þorp sem lifði og hrærðist í fiski. Og á leiðinni þvoði súldin úr þeim fiskifýluna. En eftir stóð Pláss, þetta norðlæga samfélag í firði milli fjalla, og horfði vinnubólgnum augum á bak skemmtiferðaskipinu, hvaðan sem það kom, hvert sem það hélt.

(s. 57-59)