Eitthvað á stærð við alheiminn: ættarsaga

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Hér lýkur ættarsögunni sem hefst í bókinni Fiskarnir hafa enga fætur (2013) og teygir sig frá Norðfirði forðum til Keflavíkur dagsins í dag, með viðkomu á Miðnesheiðinni. Hér er sagt frá ástinni, sem er í senn fórn og jafnvægislist, frá lífi og dauða, krepptum hnefa, Elvis Presley sem kann að opna hjörtun og stjörnum himinsins sem hverfa í eldi sólarinnar.

Úr bókinni:

Fyrsti vinnudagur okkar Ara í Drangey, fiskverkuninni í Sandgerði, er runninn upp. Stjúpa sýður hafragraut fyrir þau þrjú í morgunsárið, smyr nesti fyrir Jakob sem les Morgunblaðið, hnussandi reglulega yfir pólitík blaðsins, skoðanir hans ævinlega legið nær Þjóðviljanum en Mogginn því miður efnismeira blað og með talsvert fyllri íþróttasíðum, og það er gott, jafnvel svolítið meira en gott, að sökkva sér niður í lýsingar á leikjum í ensku eða þýsku deildinni, sökkva ofan í heim þar sem línur eru skýrar og tölurnar útrýma allri óvissu. Ari borðar hægt, óþolinmóður að komast í að lesa íþróttasíðurnar. En herinn í Póllandi er uggandi. Þar er órói, verkalýðsleiðtoginn Lech Walesa ógnar sósíalismanum, tveir barþjónar á Hótel Esju sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að hafa dregið sér fé frá hótelinu með því að þynna áfengi gestanna með vatni. Jakob er svo hneysklaður að hann les fréttina upphátt. Lítur upp, ætlar að bæta einhverju við en sér þá svipinn á stjúpu, grúfir sig á ný niður í blaðið og þögnin snýr aftur. Ari hættir við að bíða eftir íþróttasíðunum, klárar svo hratt af diskinum að heitur grauturinn brennir góminn, vill komast upp í herbergi, ná að hlust á eitt eða tvö lög í heyrnartólum. Jakob flettir blaðinu, það er þáttur um Tómas Guðmundsson í útvarpinu. Tómas áttræður, eitt okkar merkasta skáld fyrr og síðar, les Ari á hvolfi, en þá flettir Jakob aftur og önnur opna blasir við, umfjöllun um íslenska pólitík og Jakob grúfir sig yfir eyðimörkina, kyrkingslegan gróðurinn. Tómas Guðmundsson, hugsar Ari, leggur nafnið á minnið, ætlar á bókasafnið í kvöld og sækja sér bók eftir þetta skáld. Rámar í nafnið frá skólaárunum, stendur upp, skolar diskinn, hefur til nesti, ætlar svo upp í herbergið. Hvert ertu að fara, spyr stjúpa. Upp í herbergi, muldrar hann.

Stjúpa: Upp í herbergi; þú átt ekki að mæta í vinnu þar.

Jakob hættir að lesa. Þau horfa bæði á hann. Nú eru þau tvö, hugsar hann.

Ari: Ég veit.

Stjúpa: Þú mætir ekki of seint til hans Mána.

Ég ætlaði bara, byrjar hann en þagnar, stendur bara þarna. Ætlarðu hvað, spyr stjúpa. Hann yppir öxlum. Þú ert ekki í lagi, segir Jakob, næstum eins og það hefði fokið í hann, en samt er eins og það hafi líka slaknað á honum, því nú eru þau tvö, hann og stjúpa, þau eru saman, þau mætast einhverstaðar. Ari horfir á þau, þau horfa á hann. Síðan heldur Jakob áfram að lesa blaðið, hún borðar hafragrautinn, Ari fer í úlpuna, og út í dimman morguninn. Skýjað, þriggja stiga hiti, hafði rignt það vel um nóttina að snjórinn sem hafði legið yfir öllu síðan skömmu fyrir jól er næstum horfinn.

(43-5)