Eitruð epli

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Eitruðum eplum:

 “Ég sá ansi skemmtilega heimildarmynd um daginn um Mengele,” segir mamma og það glaðnar yfir henni. “Hann brallaði nú ýmislegt, sá maður. Margt bara ansi sniðugt.”
 “Sniðugt?”
 “Já, hann saumaði til dæmis saman tvíbura og sagði svo við þá: “Hlaupið.””
 “Sagði hann það? Var það sagt í þættinum? Þetta hef ég aldrei heyrt.”
 “Nei, það var ekki sagt í þættinum,” svarar mamma og rær fram í gráðið. “Ég gat mér þess bara til að hann hefði sagt það þegar hann hafði saumað börnin saman og virti sköpunarverk sitt fyrir sér. Mengele var misskilinn húmoristi.”
 “Tókstu myndina upp?”
 “Auðvitað. Ég vissi að mig myndi langa til að horfa á hana aftur.”
 “Viltu lána mér spóluna?”
 Mamma klórar sér með prjóni í hökunni. “Ég lána fólki aldrei vídeóspólur nema ég taki úr þess í pant og ÞÚ átt ekki Rolex.”
 “Þú lánaðir mér samt einu sinni Cape Fear.”
 “Þú hafðir nú bara gott af að sjá hana. Það var flott þegar Róbert beit úr kinninni á konunni.”
 “Það var ógeðslegt.”
 “Ógeðslegt? Hún gat nú bara þakkað fyrir það, jafn sviplaus kona. Ör sýnir að þú hafir sögu að segja. Einn fótur og þú átt sögu af hákarli.”
Vein berst neðan úr kjallaraíbúðinni og kvenmaður heyrist arga: “Ég var búin að biðja þig um að hætta að leika þér að eplunum, krakki. Það er ekki eins og þau vaxi á trjánum!”
 Mamma virðist ekki hafa heyrt neitt. Kannski er heyrnin farin að daprast. Peysan liðast niður úr prjónunum. Gul rönd yfir brjóstið.
“Finnst þér hún ekki snotur?” segir mamma og lyftir upp peysunni til að sýna mér.
 “Jú, jú, ég er bara ansi hrædd um að enginn eigi eftir að nota hana.” Prjónarnir hætta að tifa.
 “Hvað áttu við með þessu?” segir mamma felmtruð.

(s. 106-107)