Eins og steinn sem hafið fágar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998

Seinna bindið í skáldævisögu Guðbergs. Sú fyrri er Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar frá 1997. Bækurnar komu út í einu bindi sem Bernskan 2008.

Úr Eins og steinn sem hafið fágar

Á þessum litla grýtta mel sem ég hef núna í huga dró ég þegar ég var barn frumdrögin að fegurðarsmekk mínum. Líklega dytti fáum í hug að líta þannig á málið eða trúa að þetta svæði fyrir sunnan húsið, að þetta ekkert eins og flestir myndu segja, hafi verið í mínum augum og skynjun uppspretta fegurðarinnar. Enginn nema sá sem hefur kannski alist upp á öðrum mel og heldur að hann sé hinn eini sanni eða maður sem eyddi bernsku sinni á graslendi eða í stórborg gæti látið slíka fjarstæðu frá sér fara um melinn minn. Sá sem þannig talar hefur ekki hugmynd um að hvergi nema í bernskunni og síðan í skáldskapnum kunnum við best að meta það sem jaðrar við að vera ekkert, fljótt á litið, en allt við nánari aðgæslu. Barnið lifir í fegurð þess sem lítur út fyrir að vera úr engu gert eða einföldu og litlu. Vegna þess að það stendur sjálft á svipuðu æviskeiði, á mörkum þess að vera ekkert í augum annarra en flest í sínum eigin og þannig getur það orðið hvað sem er í framtíðinni.

Fyrir bragðið beinist fegurðarskyn barns ósjálfrátt að hverju því sem svipar til sálarlífs þess og eðlis náttúrunnar. Hliðstæðurnar í fari okkar og eðli hennar liggja aldrei eins vel í augum uppi og þá og barnið dáir náttúruna og sjálft sig líkt og það héldi að náttúran og það væru spegilmynd hvors annars. Eflaust er samruninn og sá unaður sem af unaði sprettur, það sem átt er við þótt flestir viti það kannski ekki þegar sagt er að við eigum að varðveita barnið í okkur eða listamanninn. En slíkt er engin leið og auk þess óæskilegt þótt hægt væri. Vegna þess að í staðinn fyrir hæfileikann til samruna í bernsku kemur athafnasemin og sundrung fullorðinsáranna, barnið sameinar, fullorðnir sundra, listamaðurinn sundrar, greinir og sameinar í senn, en í lokin hefst leit allra að samruna við landabréf lífs síns með íhugun um ár og vötn liðinnar tíðar, leit að fjöllunum og eldinum og þetta á ekki einungis við um listamanninn.

(s. 102-103)