Eins og skugginn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Um bókina: 

Vera, 18 ára stúlka í Reykjavík, er yfirheyrð af lögreglunni vegna slyss sem verður um hánótt. Yfirheyrslan leiðir í ljós margt óþægilegt sem hefur fylgt Veru eins og skugginn.

Úr Eins og skugginn:

 - Nei! Þetta er ekki búið!
 Hann lítur undrandi á stúlkuna sem er búin að vera eins og í dvala meðan hún hefur setið fyrir framan hann. Allt í einu er hún búin að fá málið.
 Mamma hennar horfir líka á hana hissa.
 - Ekki búið? Hvað meinarðu með því?
 - Það sem skiptir máli hefur ekki komið fram.
 Hann lítur á klukkuna. Seilist í kúlupennann.
 - Ef þú vilt bæta einhverju við þá bið ég þig um að gera það strax. Þessi skýrslutaka er búin að taka allt of langan tíma ef ég á að segja eins og er.
 - Það er ekki mér að kenna þó að þetta hafi tekið langan tíma. Það er sjálfum þér að kenna. Þú ert búinn að spóla í sama farinu í meira en tvo klukkutíma með dylgjum um að ég hafi stolið einhverju helvítis veski sem var svo tómt kjaftæði. Maður er ekki einu sinni beðinn afsökunar.
 - Ekki segja þetta, Vera mín, segir mamma hennar. Vertu kurteis! Ég bið þig!
 Hann lætur ónotin sem vind um eyru þjóta. Brosir út í annað.
 - Mér þykir þetta leitt. Þetta með veskið voru mistök hjá Jóhannesi.
 - Þú trúðir því samt á mig að ég hefði stolið því! Þú trúðir því ekki að ég hafi verið ein á hjólinu. Þú trúir frekar þessum kalli sem er búinn að ljúga upp á mig. Hann lýgur því líka að hann hafi stoppað bílinn. Hann svínaði! Heyrirðu það! Keyrði í veg fyrir mig á hundrað!
 - Við skulum ekki æsa okkur upp, Vera mín, segir mamma hennar. Það er ástæðulaust að hrópa svona.
 - Ég gat ekki komið í veg fyrir áreksturinn. Hann hægði ekkert á sér þó að það væru gul, blikkandi ljós. Hjólið rann langar leiðir af því að gatan var svo sleip. Ég gat ekki stoppað! Hann hefði getað drepið mig!
 - Það er einmitt það. Ég er búinn að heyra þetta og setja það á blað. Ég er búinn að heyra allt.
- Nei! Þú ert ekki búinn að heyra allt!

(s. 102-4)