Ein af strákunum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986

Dårfinkar och dönickar eftir Ulf Stark í þýðingu Njarðar.

Úr bókinni:

Það var dauðaþögn inni. Fyrstu sólargeislarnir smugu á milli húsanna við torgið og skinu framan í mig. Ég fór fram úr, þó að það væri alltof snemmt. Ég hefði hvort sem er ekki getað sofnað aftur.

Þetta var morguninn þegar ég varð tólf ára og allt fór af stað.

Íbúðin var eins og ruslahaugur. Það voru hrúgur af drasli út um allt. Rúmfatnaður, gluggatjöld, gömul föt, asnalegir skrautmunir sem mamma sankaði að sér, bækur, teikniblokkir, penslar og teikningar sem var búið að fleygja. Ég stiklaði varlega innan um draslið.

Ég gægðist inn í stofuna.

Þar lá mamma í fasta svefni. Hún hafði breitt yfir sig gamlan refapels, af því að henni var alltaf svo kalt af nóttunni. Við fætur hennar lá hundurinn okkar, hann Kilroy. Hann leit til mín syfjulega þar sem ég stór í dyragættinni, og var hissa á því að ég skyldi nú allt í einu vera komin á lappir á undan honum. Svo renndi hann sér fram úr rúminu og réðst á mig umlandi og másandi með blautt trýni.

- Uss! Þú vekur mömmu! hvíslaði ég í loðið eyrað á honum.

Við fórum fram í eldhús. Ég fann plastskál og þeytara í stöflum af kastarholum, innpökkuðum glösum og diskum, sósuskálum, súputarínum og pönnukökupönnum. Ég þeytti rjómann og smurði honum á tertuna sem ég bakaði kvöldið áður, meðan mamma var að fást við eina af vikublaðamyndunum sínum. Svo endaði ég með því að stinga tólf stjörnuljósum frá áramótunum í tertuna, af því a ég fann engin kerti til þess.

- Helvítis andskoti, sagði ég.

Kilroy sleikti þeytirjómann af fingrunum á mér og horfði á mig með sínum sorgmæddu augum, rétt eins og hann skildi hvað allt var ömurlegt og hvað allt yrði ómögulegt. Ég beygði mig niður að honum og þrýsti andlitinu í rjómahvítan feldinn hans og óskaði þess að geta horfið inn í hann eins og hvítur skýhnoðri.

Mig langaði ekkert til að eiga afmæli.

Mig langaði ekkert til að flytja héðan - úr þessari leiðindaíbúð sem ég kunni svo vel við, frá skapilla leiðindapúkanum honum Cederström á neðstu hæðinni sem alltaf var að kvarta yfir að mamma spilaði á saxófón á nóttunni og að Kilroy pissaði fyrir farman útidyrnar. Ég vildi ekki flytja burt frá félögum mínum, skólanum eða sjoppunni á torginu. Við áttum að flytja í einhvern gisinn timburkofa fyrir sunnan borgina. Mín vegna gátum við alveg eins farið í einhverja afskekkta krummavík með slefandi beljum og akfeitum krakkagrislingum. Ég yrði tvo tíma á leiðinni hingað með neðanjarðarlestinni. En verst af öllu var samt að við áttum að deila húsinu með Yngva, en hann er hálfviti sem mamma hefur ákveðið að fara að búa með. Ef ástin fékk fólk til að gera annan eins asnaskap, þá vonaðist ég til að komast aldrei í kynni við hana.

(5-7)