Á eigin vegum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Um bókina:

Sigþrúður er orðin ekkja og vinnur fyrir sér með blaðburði. Hún ræktar garðinn sinn og pottablómin, sinnir köttunum og sækir jarðarfarir. Hún er ein en ekki einmana; allt frá barnæsku hefur lífið kennt henni að að treysta ekki á aðra en sjálfa sig. Fólkið hennar er horfið á braut og hún fylgir því í huganum en situr sjálf um kyrrt. Djúpt í sálinni búa þau draumar um annað líf, annað land. Geta slíkir draumar hugsanlega ræst?

Úr Á eigin vegum:

3

Spegill fóstru hennar hékk vinstra megin við herbergisdyrnar þeirra. Hann var sporöskjulagaður með látúnsumgjörð og upphleyptum rósum. Litlir svartir punktar voru á víð og dreif í glerinu líkastir hulu yfir því.
Er það satt að huldukona hafi gefið þér spegilinn? spurði Sigþrúður dag nokkurn. Fóstra svaraði engu en horfði á hana yfir gleraugun.
Að hún hafi borgað þér með speglinum af því að þú tókst á móti barninu hennar? hélt hún áfram.
Láttu mig ekki heyra þessa vitleysu, góða mín, svaraði fóstra ákveðin. Sigþrúður vissi að Hallfríður fór stundum fram úr um miðjar nætur, var lengi í burtu og ísköld þegar hún kom inn aftur. En þær minntust aldrei á neitt og hún elti hana ekki.
Sigþrúður þurfti að draga stól að speglinum og stíga upp á hann svo hún gæti séð sig. Þá kom hún auga á rauðar fléttur, freknur og stór móbrún augu. Í vinstra auganu var lítill grænn blettur. Þegar hún brosti voru tennurnar ögn skakkar. Það kom fyrir að bláeyg stelpa með gyllta spöng í ljósu hári kíkti á hana undan hulunni. Þessi stelpa sagðist heita Kristbjörg og birtist aldrei nema þær væru tvær. Hún var með granna fingur, fallegar hendur og hafði ekki eina einustu freknu.

(s. 19-20)