Ég er sofandi hurð

CoDex 1962 eftir Sjón
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Ég er sofandi hurð er framhald Augu þín sáu mig (1994) og Með titrandi tár (2001). Bókin kom einungis út í safnútgáfu með fyrri bókunum tveimur, þríleikurinn í heild ber titilinn CoDex 1962.

Um Ég er sofandi hurð

„Við erum ekki mörg á þessari jörð sem getum lýst því hvernig tilfinning það var að koma í heiminn. Flestir eiga erfitt með að muna hvað þeir gerðu í gær, hvað þá fyrir viku, þremur mánuðum eða þrettán árum. En frá þeirri stundu að ég vaknaði til lífsins á eldhúsborðinu í kjallaranum að Ingólfsstræti 10a og fram til þessa dags man ég allt sem fyrir mig hefur borið.“

Árið 1962 – aldrei hafa fleiri kjarnorkusprengjur verið sprengdar, hvorki neðanjarðar né ofan. Það á eftir að hafa miklar afleiðingar fyrir sögumanninn Jósef Löwe og önnur börn fædd á Íslandi það ár, ef ekki mannkynið allt. Hinn ævintýralegi sagnavefur Sjóns heldur áfram að vaxa og verður nú enn margslungnari þegar í hann bætast þræðir sem birta okkur ógnvænlega framtíðarsýn og kannski nýja lausn.

Úr Ég er sofandi hurð

Hann skorðar konuna við húsvegginn, grípur undir hnésbætur hennar og lyftir henni af fótunum, um leið og hann rekur liminn svo djúpt í hana að gengur upp að pungi. En þannig heldur tukthúslimurinn konunni fastri á veggnum — og hún krossleggur fætur á baki hans og keyrir í hann hvassa skóhælana — á meðan hann nýtur líkama henn­ar af ofsa og áfergju.

Þá opnast gluggi á annarri hæð hússins og í honum birtist skuggamynd af hárlitlu karlmannshöfði:

- Viljið þið hypja ykkur eða ég hringi á lögregluna!

Án þess að missa úr drátt eða stungu í samförunum kastar tukthúslimurinn aftur höfði, teygir fram álkuna og öskrar til karlsins uppi í gluggaopinu:

- Haltu kjafti, helvítis gerpið þitt...

Hann hefur ekki fyrr sleppt orðinu en svíðandi undanfari fullnægingarinnar læsir sig um hann neðanverðan. Það blossar fyrir augum hans. Hann gnístir tönnum — hann finnur sæðið sprautast úr lim sínum í skaut konunnar — þykir sem hann fylli hana.

Tukthúslimurinn linar takið á konunni, úr honum er allur vindur. Hann lyftir henni af lim sínum, lætur fætur hennar síga svo þeir snerta jörð. Hún smeygir sér úr fangi hans. Hann styður sig við húsvegginn og horfir í mölina, sér út undan sér hvar hún sléttir úr grænu pilsinu, sveipar sig pelsinum.

En í því að hún gengur í burtu heyrir hann hlegið kalt við eyra sér:

- Þú hefur ekkert breyst, endist ekki rassgat...

Þetta er hlátur stúlku sem hann tók eitt sinn nauðuga á Siglufirði fyrir þrettán árum. Þegar krakkar fundu hana morguninn eftir, í fjörunni neðan við vélsmiðjuna, hafði verið farið með á hana á spítalann á Akureyri. Hún hafði ekki snúið aftur í plássið. Og sjálfur lét hann sig hverfa suður til Reykjavíkur.

- Dísa? Dísa „síld“ ...

Hann lítur upp, með nafn hennar á vörunum. En í stað þess að hún svari honum standa yfir honum hárlítill karlinn úr glugganum, lögregluþjónn og fangavörðurinn sem útskrifaði hann úr steininum fyrir hálfri klukkustund.