Eftirmáli regndropanna

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Eftirmál regndropanna:

Boðskapur drottins

 Og áfram fjúka droparnir.
 Áfram blæs vindurinn.
 Það sem hann vill að fjúki; því feykir hann um koll.
 Það sem hann vill að rísi; það reisir hann við.
 Aðeins hann sem sprettur af engu getur eytt öllu.
 Hann lætur grösin tala, trjálaufin þyrlast og stundum þegar rafmagnssnúrurnar hvína minna þær á ýlusprengjur.
 Og hann blístrar og flautar, sveiflar breiddargráðunum einsog bassastrengjum yfir höfði sér og blæs úr öllum áttum samtímis.
 Þá titra rúður í gluggum húsa, ljósastaurar hristast meðfram götum og kirkjuklukkurnar, stundum hringja þær látlaust.

 Síðan Sigríður dó hefur Daníel prestur, sem annars er með afkastamestu sálmasmiðum landsins, ekki ort einn einasta sálm og af ótta við að börnin fjúki uppí loftið og stígi í líkamlegum skilningi til himna er allri tímakennslu aflýst.
 Því hreyfast vængjahurðirnar hvorki né bifast og kirkjan er harðlæst á meðan Daníel, undir eilífri barsmíð regndropanna á rúðunum og með klukkuhljóminn sífellt glymjandi í eyrunum, gengur hempuklæddur í fullum skrúða um prestssetrið.
 Svo aleinn og yfirgefinn að ýmist reikar hann um ganginn á milli herbergja niðurlútur og með sorgir sínar í pokum undir augunum eða hann krýpur frammi fyrir litla stofualtarinu með greiparnar einsog límdar saman og varirnar á stöðugri hreyfingu í bæn.
 Þá er hann að biðja og svo kröftugar geta bænir Daníels verið að stundum leika orgeltónar um stofuna og Sigríður birtist honum með herskara af englum sem aðeins sjást undir augnalokunum handan regndropanna á rúðunum.
 Og þegar hann rís upp, með hárið einsog fjaðrafok og augun starandi, heyrir hann alltaf í klukkunum, sem stöðugt slá í vindinum og dropunum sem berja rúðurnar og rödd; í gegnum klukkurnar vindinn dropana og rúðurnar heyrir hann rödd sem á hverjum degi kemur aftur og aftur.
 Í hvert skipti sperrir Daníel eyrun, baðar út höndunum og veifar fingrunum einsog séu þeir krossar, því hann veit að einsog litla blómið í sálminum og vegvillta lambið í ævintýrinu hlýtur hann einnig að finna leiðina og rata út úr myrkvuðum öngstrætunum.
 Þess vegna kemur það honum ekkert á óvart að einmitt nú skuli drottinn guð almáttugur birtast með rödd sína og reyna að ná til hans með boðskap sinn.
 Því hér er ég hirðmaður þinn og þjónn reiðubúinn að ganga hvern þann hlykkjótta veg...
 En sama hvernig Daníel prestur sperrir eyrun og þó hann veifi fingrunum og spenni greipar og sama hvað hann segir, þó hann hrópi og kalli, heyrir hann samt engin orðaskil og greinir hvorki merkingu boðskap né þráð í orðum drottins.
 Einsog vindurinn blási þeim burt og feyki þeim til einsog regndropunum og rugli þeim þannig og brengli.
 En til að drottinn guð almáttugur gefist ekki upp og haldi áfram að tala og koma boðskap sínum í gegnum rúðurnar og svo hann nú örugglega þekki hirðmann sinn og þjón og ruglist ekki á honum og öðrum hirðmönnum og öðrum þjónum, nei þá lætur Daníel prestur sér ekki einungis nægja að biðja og ganga hempuklæddur um prestssetrið á daginn heldur sefur hann með gylltan kross í brjóstvasa náttjakkans og heilaga ritningu við höfðalagið í rúminu og svo ekkert fari á milli mála með hvítan prestakraga um hálsinn.
 Eða sefur hann?
 Eða sefur hann ekki?
 Það er spurning, því hvað er draumur og hvað er vaka þegar martraðir fullar af fjúkandi dropum og blásandi vindum ryðjast með svo skelfilegri ógn í gegnum náttmyrkrið og þegar Daníel prestur vaknar allur rennblautur í svitabaði þarf hann að leggja heilaga ritningu á ofn og vinda bæði náttfötin og prestakragann og það í sömu mund og hann sér að úti, fyrir utan gluggana, er veruleiki draumsins, martröðin einsog ljósrit af sjálfri sér.
 Og þannig líða dagar, þannig líða nætur og því þarf engan að undra þó stundum í ljósaskiptum morgunsins hugsi Daníel prestur á meðan hann situr við eldhúsborðið og drekkur lapþunnt kaffi og reynir að jafna sig eftir illskiljanlegar furðusýnir sem komið hafa til hans í martröðunum; nei það er ekkert skrýtið þó hann hugsi að veröldin sé ekki aðeins flækt inní átök við áður óþekktar stjörnur og ekki bara örlögin vædd frumkröftum leyndardómanna og uppreisnargjarnir englar undir forystu myrkrahöfðingjans séu hér að verki heldur sé stundin runnin upp, dagurinn kominn og flóðið byrjað.

(s. 232-235)