Eftirbátur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

um bókina

Ægir leitar að sjómanninum föður sínum eftir að bátur hans finnst mannlaus út af Vestfjörðum. Leitarleiðangrar Ægis vekja spurningar um faðernið sjálft í þessum harðbýla heimshluta. Hver er hinn raunverulegi faðir og hvað mótaði hann? Er nauðsynlegt að þekkja söguna til að vita hver maður er?

Þetta vefst fyrir Ægi sem lifir og hrærist í núi auglýsingaheimsins og veit „andskotann ekkert um fortíðina“. Í leit sinni fer hann vítt og breitt um stórbrotna náttúru og sögu Vestfjarða þar sem rætur hans sjálfs liggja. Á sama tíma eru teikn á lofti í fjölskyldulífinu og brestir komnir í hina hefðbundnu karlmennskuímynd.

 

úr bókinni

Skarpi boðar mig í bítið morguninn eftir, vill vera kominn á miðin um fallaskiptin. Það hefur lægt og ekki annað að sjá en að gott verði í sjóinn. 

Þekktir þú hana ömmu mína? spyr ég á leiðinni út fjörðinn.

Hvora?

Föðurömmu mína, hana Melkorku.

Maður gleymir henni nú ekki.

Nú?

Hún var með þetta eldrauða hár, það fór nú ekki framhjá neinum.

Eldrautt hár, hvernig gat það farið framhjá mér? segi ég við sjálfan mig, vil ekki ljóstra upp svo skæðu þekkingarleysi.

Hvers konar manneskja var hún? Hvað var sagt um hana?

Hún hafði nú sínar hugmyndir, sú gamla. fólki fannst stundum erfitt að átta sig á henni. Var höll undir spírítisma, sérstaklega kenningar doktors Helga Pjeturs og var alltaf að fara með eitthvað upp úr nýalnum hans. Undir lokin var hún hérna á elliheimilinu í Mánagötunni og sagt var að hún talaði mikið við mann sem hún fullyrti að væri barnsfaðir sinn en ætti nú heima á annarri plánetu. Var höfð í skúr við heimilið eins og dýr. Átti til að skrækja á okkur krakkana út um gluggann: Þetta er bara ykkar fyrsta líf! Þið farið öll á aðra jaðrstjörnu!

Ég man ekkert eftir henni, segi ég. Ég var á fimmta ári þegar hún dó.

Þetta var voðalega erfitt fyrir hann afa þinn. Hún vildi ekki sjá hann síðustu árin og kallaði hann öllum illum nöfnum. Hann var að vísu drykkfelldur, lá í því þegar hann var í landi og gat verið illskeyttur. Sagt var að hann hefði einhvern tíma verið fullharðhentur við pabba þinn. Þetta var ekki auðvelt líf á togurunum í gamla daga, miklar vökur og aðbúnaðurinn eins og hann var. Sé það í lagi.

Veistu hvort það hafi verið einhver mállaus kona á þessum slóðum hér áður fyrr?

Hún Málfríður amma mín missti málið eftir að hafa veikst illa þegar hún eignaðist tvíbura. Hún lærði nú reyndar að tala aftur en talaði aldrei eðlilega eftir það.

Málfríður?

Kölluð Malla. Blessuð sé minning hennar. Þar fór góð kona, kannski of góð.

(s. 142-144)