Dvergliljur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1968
Flokkur: 


Úr Dvergliljum

Karl og kona

Drottinn guð lífsins átti erindi við fjárhirðinn Móse.
Fundum þeirra bar saman í fjallshlíð vaxinni þyrnikjarri.
Móses, þrælborinn uppreisnarmaður og útlagi,
hélt fénaðinum þar til beitar.
Drottinn guð lífsins tók hann tali
og vildi gera hann að jarli sínum
og setja hann yfir hina útvöldu þjóð
og bauð honum að leiða hann heim í Fyrirheitnalandið.
Þeir þjörkuðu um þetta lengi dags áður en þeir sömdu.
Loks lofaði Móses fyrir sitt leyti að halda samninginn.
Og aldir liðu.

Þá var það
að Drottni guði lífsins
kom konan í hug.
Hann sendi skutulsvein sinn, Gabríel að nafni,
með laumuleg skilaboð til meyjarinnar Maríu,
sem sat í festum í föðurgarði.
Stúlkan María var af vammlausri fjölskyldu
og heitin forstöndugum smið.
Þrátt fyrir það flutti Gabríel henni
hin furðulegu skilaboð frá húsbóndanum.
Stúlkan laut þrisvar svo enni hennar nam við gólf
og mælti án umþenkingar: “Sjá ég er ambátt Drottins.”