Dreggjar dagsins

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990

Um þýðinguna

Skáldsagan The Remains of the Day eftir Kazuo Ishiguro í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar. 

Úr Dreggjum dagsins

„Það sem ég vildi sagt hafa Stevens, þetta er ósvikið gamalt enskt stórhýsi, er það ekki? Það var það sem ég borgaði fyrir. Og þú ert ósvikinn gamaldags enskur bryti, en ekki bara ótíndur veitingaþjónn sem þykist vera það. Þú ert alvörubryti, er ekki svo? Það var það sem ég vildi fá, og það er það sem ég hef.“

 „Ég leyfi mér að segja að svo sé, sir.“

 „Geturðu þá útskýrt fyrir mér það sem frú Wakefield er að segja? Það er mér mikil ráðgáta.“

 „Það er hugsanlegt að ég kunni að hafa gefið frúnni dálítið villandi mynd af starfsferli mínum, sir. Ég byðst velvirðingar ef það hefur valdið vandræðum.“

 „Það olli heldurbetur vandræðum. Þetta fólk lítur nú á mig sem monthana og lygalaup. Hvað sem því líður, hvað áttu eiginlega við með því að þú hafir gefið henni „dálítið villandi mynd“?“

 „Mér þykir það leitt, sir. Mig óraði ekki fyrir að ég myndi valda yður slíkum vandræðum.“

 „En fari það kolað, Stevens, hversvegna sagðirðu henni þessa sögu?“

 Ég velti aðstæðunum fyrir mér stutta stund, sagði síðan: „Mér þykir það afarleitt, sir. En það er tengt siðvenjum í þessu landi.“

 „Um hvað ertu eiginlega að tala, maður?“

 „Ég vildi sagt hafa, sir, að í Englandi er ekki siðvenja að starfsmaður ræði um sína fyrri húsbændur.“

 „Allt í lagi, Stevens, svo þú vilt ekki gera uppskátt um gömul trúnaðarmál. En gengur það svo langt að þú þurfir að neita að hafa unnið fyrir nokkurn annan en mig?“

 „Það virðist vera nokkuð öfgakennt þegar það er orðað þannig, sir. En það hefur oft verið talið æskilegt að starfsmenn láti slíkt í veðri vaka. Ef ég má orða það svo, sir, þá er það eilítið áþekkt þeim siðvenjum sem eiga við um hjónaband. Sé fráskilin kona í félagsskap seinni mannsins, þá er einatt talið æskilegt að hún víki alls ekki orðum að fyrra hjónabandi. Svipuð siðvenja er í heiðri höfð í okkar fagi, sir.“

 „Jæja, ég vildi bara að ég hefði vitað um þessa siðvenju ykkar fyrr Stevens,“ sagði húsbóndinn og hallaði sér aftur í stólnum. „Óneitanlega varð þetta til þess að ég kom henni fyrir sjónir eins og þöngulhaus.“

 Ég held ég hafi gert mér ljóst þá þegar, að þessari skýringu minni var hörmulega ábótavant – þó í henni væri vitanlega sannleikskorn. En þegar um svo margt annað er að hugsa, er ekki að því hlaupið að gefa þvílíkum málum mikinn gaum, og þessvegna sló ég atvikinu satt að segja úr huga mér um hríð. En þegar ég nú rifja það upp í friðsældinni sem umlykur þessa tjörn, þá virðist lítill vafi leika á því að framkoma mín við frú Wakefield standi í augljósu sambandi við það sem átti sér stað nú síðdegis.

 Að sjálfsögðu eru margir nú til dags sem fara með allskyns þvætting um Darlington lávarð, og vel má vera að þú haldir að ég sé á einhven hátt feiminn eða sneyptur vegna samneytis við lávarðinn, og það liggi til grundvallar þessari framkomu. Þá vil ég einungis segja skilmerkilega að ekkert gæti veri fjær sanni. Langmest af því sem maður heyrir um lávarðinn nú á dögum er hvorteðer blábert þvaður, byggt á nálega fullkominni fáfræði um staðreyndir. Reyndar virðist mér mætavel mega skýra kynlega framkomu mína útfrá ósk um að forðast alla hugsanlega möguleika á að heyra meira af þvaðrinu um lávarðinn; það vill segja að ég hafi í báðum tilvikum kosið hvíta lygi sem greiðfærustu leið til að komast hjá óþægindum. Það virðist mér vera mjög sennileg skýring því lengur sem ég velti henni fyrir mér; því það er dagsatt að ekkert gremst mér fremur nú um stundir en heyra þessháttar þvaður endurtekið. Ég vil taka fram, að Darlington lávarður var heiðursmaður gæddur miklu siðgæðisþreki – siðgæðisþreki sem smækkar flesta þá sem nú eru að blaðra um hann – og ég votta hiklaust að það var hann til hinstu stundar. Ekkert gæti verið fjær lagi en gefa í skyn að ég harmi samneyti við þvílíkan heiðursmann. Reyndar mun þér skiljast að þjónustan við lávarðinn í Darlingtonhöll á þessum árum hafði í för með sér, að maður á borð við mig komst eins nálægt nöf veraldarhjólsins og hann gat nokkurntíma látið sig dreyma um. Ég þjónaði Darlington lávarði í þrjátíuogfimm ár, það væri vissulega ekki óréttmætt að halda því fram, að á þeim árum hafi maður í eiginlegasta skilningi verið „tengdur nafntogaðri fjölskyldu“. Þegar ég horfi um öxl yfir starfsferil minn, er helsta ánægjuefnið fólgið í því sem ég fékk til leiðar komið á þessum árum, og ég er í dag einungis hreykinn og þakklátur fyrir að hafa orðið slíkra forréttinda aðnjótandi.

(s. 100-102)