Draumaþjófurinn

draumaþjófurinn
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

Myndir eftir Lindu Ólafsdóttur

Um bókina

Í Hafnarlandi er allt eins og það á að vera og rotturnar þekkja sinn sess í lífinu: Safnarar safna mat, Njósnarar njósna, Bardagarottur halda óvinum frá og Étarar éta og hafa það gott. Efst í virðingarstiganum er Skögultönn Foringi sem öllu ræður.

En daginn sem dóttir hennar, Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís, gerir uppreisn tekur sagan óvænta stefnu; fer með söguhetjuna okkar inn í Borgina þar sem hættur eru á hverju strái og framandi rottur leika lausum hala. Sjálfur DRAUMAÞJÓFURINN er sendur til að bjarga henni – eða til að deyja!

Úr bókinni

  "Hvaða starf heldurðu að þú fáir á morgun? Á Draumanóttinni?" spurði Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís frussandi án þess að hætta að borða.
  "Mig langar að verða Njósnari! Það er draumurinn!" sagði Halaldur og ljómaði í framan.
  "Mig líka! Mig dreymir um að verða Njósnari!" hrópaði hún upp yfir sig.
  "Í alvöru? Þá getum við kannski verið saman í liði. Njósnararnir eru alltaf tveir og tveir saman!" hrópaði Halaldur.
  "ÉG VEIT ÞAÐ!" æpti Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís. Þetta var of gott til að vera satt. Þau skellihlógu bæði og frussuðu mat út um allt.
  "En ...!" sagði Halaldur og hætti að hlægja.
  "Hvað?" spurði Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís brosandi.
  "Má ég ekki bara alltaf kalla þig Eyrdísi? Þetta nafn þitt, Eyrnastór Aðalbarn Gullfalleg Rottudís, er mjög fallegt en líka mjög langt," sagði hann og andvarpaði, eins og hann væri dauðuppgefinn á að segja svona langt nafn.
  "Jú, kannski. En ekki segja neinum það. Bara þú mátt kalla mig Eyrdísi," sagði hún og fékk fiðrildi í magann.
  "Allt í lagi. Takk!" sagði Halaldur og leit á vinkonu sína. Þó að hér væri ekki skrifað undir neinn samning eða tekist í loppur fundu þau bæði að þessi ákvörðun innsiglaði vináttu þeirra. Héðan í frá yrðu þau bestu vinir í heiminum. Svo sneru þau sér aftur að matnum.

(17-18)