Draumar eru lengi að rætast

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Ljóðabók að íslensku og þýsku. Anna G. Torfadóttir myndskreytti bókina.

Þýskur titill bókarinnar er ...und Träume brauchen länger. Eberhard Rumbke þýddi á þýsku.

Úr Draumar eru lengi að rætast:

Æskumynd

Haustkvöld í götunni okkar
stórfiskaleikur á malarvegi
í nýbyggðu hverfi við Laugarnes
Ung stúlka með gulan angóratrefil
með dúskum
hleypur í fangið
á fallegasta stráknum í hverfinu

Þannig byrjaði það
örlög, þræðir
allt hefur sinn tíma
Lífið streymir í ós sinn
úr ós sínum
Lífsgangan ráðin

Þar liggja gengin spor

Morgunn í Minneapolis

Nýkomin frá Róm
sem rífur úr mér hjartað
látlaust
gömul og villt
eins og ég sjálf

En í Minneapolis
þarf ég ekki að
rífa úr mér hjartað
ungur morgunn
auð stræti
saga mín víðsfjarri
Stundargrið
undir höllum nýfæddum mána

Við gluggann

Hjartalæknirinn sagði
að það væri gluggi til hjartans
undir vinstra brjóstinu

Núna sit ég við gluggann
og horfi á snjóflygsurnar dansa

hugsa um orðin
og þá sem eru farnir

Ástin ein eftir
og örfá aukaslög heyrast
í gömlu lífsreyndu hjarta

Leiftur

Hratt flýgur
hugur
leitar ljóss
í grænum augum
leiftur
og allt virðist
mögulegt
fallegt
eins og forðum
þegar ekkert var orðið
og fangið fullt
af frelsi
Leiftur ljóss
Hvert mun þig bera
Mögulegt
Fallegt