Draugaslóð

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2007
Flokkur: 


Úr Draugaslóð:

Himininn var þungbúinn á Hveravöllum þennan morgun. Óveðursbólstrar grúfðu yfir Hofsjökli og grásvartir skýjakólfar æddu um loftin.
Ætli það verði eitthvað úr þessu? muldraði Jón og rýndi upp í skýin þegar þeir lögðu af stað.
Það getur ekki verið. Veðurspáin gerði ráð fyrir dálitlum hraglanda en engu alvarlegu, sagði Jónas bjartsýnn.
Feðgarnir lögðu á hrossin. Þeir horfðu áhyggjufullir til himins. Það var farið að blása af jöklinum.
Þeir riðu hratt eftir veginum og enn hvessti og svo fór að slydda. Slyddan breyttist í þykka snjókomu og nú hlóð niður snjó svo naumlega sást frá aftasta reiðmanni á þann fremsta.
Þetta var ekki í spánni, sagði McReynolds og reið upp að hlið eldri sonar síns.
Nei, þetta hlýtur að hætta fljótlega.
En veðrinu slotaði ekki. Það bara versnaði. Edgar litli var þögull. Hann hugsaði með sér að hann skyldi aldrei aftur láta þvinga sig í svona leiðangur.
Þegar ekkert lát varð á fannfergi stöðvaði Jónas reiðina og skipaði Jóni og feðgunum að halda utan um stóðið. Hann fór ofan í hnakktöskuna og náði í síma og reyndi að hringja.
Við verðum að láta vita af okkur. Það er að skella á glórulaust veður, kallaði hann upp í vindinn sem enn var að rífa sig upp. Eftir talsvert basl stakk hann símanum aftur í hnakktöskuna.
Það er ekkert samband. Snúum við! Reynum að ná aftur til Hveravalla, hrópaði hann á ensku.
Þeir sneru við en nú voru hrossin orðin óróleg og tvö þeirra ruku frá þeim út í kófið.
Sækjum hestana, kallaði Jón.
Jónas og herra McReynolds fylgdu honum eftir út í kófið.
Brian greip í tauminn á hesti bróður síns.
Ég ætla ekki að týna þér, hrópaði hann en nú var orðið erfitt að tjónka við hrossin. Verum kyrrir hér. Það þýðir ekki að elta þá. Við sjáum þá ekki.
Fylgdarmennirnir og faðir drengjanna voru horfnir út í bylinn. Brian fór af baki til að róa hrossin sem ólmuðust mót veðurhamnum. Hann hjálpaði litla bróður sínum af baki.
Við skulum teyma hestana og reyna að komast til baka, kallaði Brian og hélt í bróður sinn.

(bls. 105-106)