Draugar vilja ekki dósagos

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 


Úr Draugar vilja ekki dósagos:

Á efri hæðinni varð allt hljótt. Inn í græna súðarherbergið barst lágur kliður raddanna úr kjallaranum og ómur af tónlistinni úr kassettutæki Elsu.
 Hægt og varlega þokaðist Móri út úr veggnum. Hann leit í kringum sig í herberginu og pírði augun í birtuna. Svo hlustaði hann fram á ganginn og stóð hugsi um stund. Hann var í mórauðum vaðmálsbrókum og ullarpeysu sem var öll götótt. Í hendinni hafði hann stafprik og var ofboðslega skítugur. Hárið var sítt og allt í tjásum. Hann gekk yfir að glugganum og leit út þokukenndum augum.
 Ekki skil ég hvað stúlkubjálfinn er að þvælast hingað með þennan gný, sagði hann ergilegur. Í sömu andránni jókst hávaðinn á ný. Fjölskyldan var á leið upp á fyrstu hæð aftur.
 Ja, hér þarf margt að laga, kallaði mamma og leit aftur inn í eldhúsið.
 Já, en húsið er prýðisvel byggt, kallaði pabbi á móti.
 Kjallaraíbúðin er alveg ljómandi, heyrðist í ömmu sem kom másandi upp úr kjallaranum.
 Hér var alltaf svo hljótt. Ég gat blundað árum saman. Hvað er allt þetta fólk að vilja? tautaði Móri ofan í bringu sér.
 Eigum við að kaupa húsið? kallaði Elsa fullum hálsi innan úr stofu. Kaupa húsið ... kaupa húsið ... bergmálaði í tómum stofunum.
 Við þetta brá Móra svo mikið að hann fleygði í fáti frá sér prikinu og greip fyrir eyrun. Það flaug yfir herbergið og lenti á gólflistanum sem pabbi hafði reist upp við vegginn. Prikið og gólflistinn skullu á gólfið svo undir tók í húsinu.
 Elsa slökkti á tækinu. Niðri varð steinþögn.
 Hvað var þetta? kallaði mamma.
 Þögn.
 Er einhver þarna uppi? kallaði amma varlega.
 Ekkert svar.
 Látið þið ekki svona stelpur mínar. Þetta var bara húsdraugurinn, sagði pabbi og skellihló. Komið þið nú.
 Húsdraugurinn ... hvíslaði Elsa og horfði upp eftir gamla tréstiganum. Hún fann hvernig maginn í henni herptist saman af spennu. Svo hraðaði hún sér á eftir hinum.
 Amma, eru til draugar? kallaði hún og hljóp á eftir ömmu sinni.
 Móri heyrði ekki hverju amma hennar svaraði en hann horfði á eftir þeim út um gluggann.

(s. 7-9)