DNA

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um DNA:

Ung kona er myrt á hryllilegan hátt á heimili sínu að nóttu til. Eina vitnið er sjö ára dóttir hennar. Skömmu síðar lætur morðinginn aftur til skarar skríða. Radíóamatör fær sérkennileg skilaboð á öldum ljósvakans sem tengja hann við bæði fórnarlömbin. Þó þekkir hann hvorugt þeirra.

Úr DNA:

Margrét virtist enga hugmynd hafa um að fylgst væri með henni. Hún sat í litlum sófa sem rétt rúmaði hana og risastórt tuskudýr sem stillt var upp við hlið hennar. Dýrið hafði hún ekki snert. Grænleit augun voru i stöðugri leit að einhverju sem gæti fangað athyglina í fábrotnu herberginu. Það var varla að hún liti í augu Silju, ungu konunnar sem sat í stól við hlið hennar og reyndi að halda uppi samræðum með einföldum spurningum um telpuna sjálfa. Hún brosti reglulega til Margrétar og gætti þess að líta ekki óeðlilega oft í áttina að stórum spegli á veggnum gegnt sófanum. Telpan leit hins vegar hvað eftir annað í hann, staðri á sjálfa sig án þess að gera sér grein fyrir því að horft var á móti. Hún hafði ekkert sagt, lét sér nægja að kinka kolli og hrista höfuðið eftir því sem við átti. Það gerði svo sem lítið til, spurningar Silju voru ekki enn farnar að snúast um það sem máli skipti. Fyrst varð hún að byggja upp traust milli sín og barnsins og auk þess var enn beðið eftir fulltrúa lögreglunnar.

„Þetta gengur ekki! Hvar er þessi helvítis lögga?“ Föðurafi stelpunnar hafði komið með hana á staðinn. Maðurinn virtist tæplega sextugur og hrokkið hárið á kolli hans var svo hvítt að það var nánast gagnsætt. Hann mætti órakaður og með illa krumpaðan skyrtukragann upp í loftið öðrum megin. Undir möllum venjulegum kringumstæðum hefði Freyja velt því fyrir sér hvort maðurinn fyndi virkilega ekki fyrir ertingu undan kraganum á neðanverðum kjálkanum. En á þennan stað mætti fólk yfirleitt í andlegu uppnámi svo enginn kippti sér upp við þetta. Þau höfðu séð það svartara. Hann hafði um annað að hugsa en skyrtukraga og rakstur, tengdadóttir hans hafði fundist myrt, sonurinn ennþá erlendis og þau hjónin komin með þrjú börn í fangið sem þau höfðu ekki hugmynd um hvernig átti að umgangast í sorg þeirra og ótta. Hann frussaði þegar hann talaði og fínlegir dropar lentu á gljáfægðu fundarborðinu. Þar glitruðu þeir um stund uns þeir gufuðu upp. Viðstaddir reyndu að láta sem enginn tæki eftir þessu. „Ætlið þið að láta hana sitja undir eilífum spurningum um skólann og vini hennar? Sjáið þið ekki hvernig henni líður? Hvaða djöfulsins máli skiptir þetta? Er ekki um annað að tala?“

Þau sem sátu umhverfis fundarborðið beindu athyglinni að Konráði Bjarnasyni, fulltrúa ríkissaksóknara. Það virtist sameiginlegt mat manna að hann væri í forsvari og ætti að svara manninum. Reynsla Freyju af Konráði var takmörkuð en það sem hún hafði þó séð til hans í fyrri málum lofaði ekki góðu. Hann virtist einn þessara náunga sem smurði sig olíu á morgnana í von um að enginn næði að klína á hann ábyrgð þann daginn. Konráð leit niður og dustaði ímyndað ryk af litríku bindi sem var í engu samræmi við alvarlega stemninguna. Þegar ljóst varð að frá honum væri engra svara að vænta litu menn á Freyju. Hún gat varla leikið sama leikinn, þagað og beðið eftir því að athyglin færðist á einhvern annan. Ef allir tækju upp á því yrðu þau hér í allan dag.

(48-9)