Dimma

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Lögreglufulltrúinn Hulda rannsakar síðasta sakamálið sitt áður en henni er gert að hætta störfum fyrir aldurs sakir, 64 ára gömul. Ung kona, hælisleitandi frá Rússlandi, finnst látin á Vatnsleysuströnd og bendir ýmislegt til þess að hún hafi verið myrt.

Engum er hægt að treysta og enginn segir allan sannleikann. Hörmulegir atburðir úr fortíð Huldu sækja á hana og hún gerir afdrifarík mistök við rannsóknina sem hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar.

Úr bókinni:

Unga móðirin stóð við glerið og beið. Hún hafði að venju klætt sig upp fyrir heimsóknina. Sparikápan var farin að láta á sjá, en þar sem fjárhagurinn var þröngur varð hún að duga. Alltaf var hún látin bíða, eins og verið væri að refsa henni, minna hana á að hún hefði gert mistök, gefa henni tíma til þess að hugsa sinn gang. Það rigndi úti og kápan var því nokkuð blaut, sem var ekki til bóta.

Nokkrar mínútur liðu eins og eilífð í þögninni, en svo birtist fóstra með litlu stúlkuna. Hjartað í móðurinni tók kipp, líkt og ætíð þegar hún sá dóttur sína hinum megin við glerið. Drungi og vonleysi færðist yfir hana en hún reyndi að leyna því eins vel og hún mögulega gat, þótt erfitt væri. Sú litla var reyndar ekki nema sex mánaða gömul, einmitt þennan sama dag, og eflaust myndi hún ekki muna eftir neinu. En eitthvað sagði móðurinni að mikilvægt væri að reyna að skapa jákvæðar minningar, að litlu stúlkunni þætti vænt um heimsóknir móður sinnar.

Stúlkan var hins vegar síður en svo glöð á svipinn. Og það sem verra var, hún sýndi nánast engin viðbrögð við konunni hinum megin við glerið. Það var engu líkara en að hún væri að horfa á ókunnuga manneskju, skrýtna konu í blautri kápu sem hún hefði aldrei á ævinni séð áður. Og þó hafði hún legið í fangi móður sinnar á fæðingardeildinni fyrir svo skömmu síðan.

Hún fékk að koma í heimsókn tvisvar í viku, en það var ekki nóg. Í hvert sinn fann hún hvernig fjarlægðin á milli þeirra jókst. Hvernig stúlkan missti smátt og smátt tenginguna við móður sína; aðeins tvær heimsóknir í viku og gler á milli.

Móðirin reyndi að segja eitthvað við dóttur sína, tala í gegnum glerið. Hún vissi að hljóðið átti að berast ágætlega á milli, en áttaði sig þó jafnframt á því að orðin ein hefðu lítil áhrif. Litla stúlkan hafði engan skilning á því sem sagt var, það eina sem hún þurfti var hlýtt faðmlag frá móður sinni.

Hún reyndi að halda aftur af tárunum, það þurfti töluvert átak til þess. Svo brosti hún til stelpunnar sinnar, sagði henni í hálfum hljóðum hve mikið hún elskaði hana. Vertu dugleg að borða, sagði hún. Vertu þæg við fóstrurnar. Og allan tímann langaði hana mest til þess að brjóta glerið og hrifsa stúlkuna til sín, halda þéttingsfast um hana og láta hana aldrei frá sér aftur. Aldrei.

Áður en hún vissi af var hún komin þétt upp að glerinu. Svo bankaði hún laust. Stúlkan sýndi örlítið meiri viðbrögð núna, brosti lítið eitt. Brosið bræddi hjarta móðurinnar og nú læddist fyrsta tárið niður vangan. Svo bankaði hún aðeins fastar og nú hrökk barnið við og byrjaði að gráta líka.

(17-8)