Dagbók Ólafíu Arndísar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011
Flokkur: 


Myndskreytingar: Margrét Einarsdóttir Laxness.Úr bókinni:Föstudagur 25. júníKæra dagbók,Jæja, þá er ég búin að kynna mig. Ég er sem sagt höfundur þessarar dagbókar. Ég er bara nýbyrjuð að halda dagbók, þetta er fyrsti dagurinn. Í dagbók á maður víst að skrifa um allt sem gerist í lífi manns og það sem maður er að hugsa. Ég veit þetta því að ég er að lesa Dagbók Önnu Frank. Það er bók en samt er hún alvöru því að Anna Frank var til í alvörunni. Hún skrifaði dagbókina sína þegar hún var unglingur í seinni heimsstyrjöldinni. Allir nasistarnir vildu ná henni af því að hún var gyðingur. (Skil samt ekki alveg hvaða mái það skipti en ég get ekki spurt mömmu. Við erum sko í fýlu.) Anna neyddist þess vegna til að fela sig með fjölskyldunni sinni uppi á háalofti í húsi í Amsterdam í Hollandi. Hún gat ekkert farið út eða hitt vini sína eða farið í bíó eða búðir eða æft fótbolta. Hún var eiginlega svona fangi. Næstum eins og ég núna!Þess vegna ákvað ég í bílnum á leiðinni norður, þegar ég var hálfnuð með dagbókina hennar Önnu, að þetta ætti ég að gera líka. Að skrifa mína eigin dagbók um útlegðina sem foreldrar mínir eru búnir að dæma mig í. (Held ég hafi fengið hugmyndina þegar ég var næstum dáin úr leiðindum í dal sem heitir Öxnadalur og er endalaust langur.) Svo þegar ég verð búin að finna mér vinnu á Dalvík og safna mér fyrir fari aftur til Reykjavíkur, ja eiginlega í Garðabæinn því ég hef ákveðið að láta foreldra Sigrúnar og Heklu ættleiða mig (þær eru einu vinkonur mínar í heiminum núna!) þá verður hnausþykka dagbókin mín gefin út um allan heim og ég verð fræg og eignast fullt af peningum. Allir vilja lesa um aumingja litla Grafarvogsbarnið sem var neytt til að yfirgefa allt og alla sem það þekkti og lifa sem fangi í gömlu draugahúsi á Dalvík sem hefur ekki einu sinni götunafn heldur heitir bara Nýibær.En það er best að ég segi nákvæmlega frá því sem gerðist. Segi aðeins frá því af hverju ég bý ekki lengur í flotta einbýlishúsinu mínu í Grafarvogi, þar sem ég hafði allt til alls átti marga vini og var á góðri leið með að verða einhverskonar undrabarn í fótbolta. Sko, ástæða þess að ég sit núna með þessa grænu gormastíladagbók er einföld: Foreldrar mínir rústuðu lífi mínu á einum mánuði!(s. 7-8)