Dagar mannsins

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1954
Flokkur: 

Úr Dögum mannsins:

Un moment bilateral

umferðin var eins og stórt fljót látlaust drynjandi og enginn friður til á jörðu og það var lykt haustsins af steiktum kastanjuhnetum og hún sagði hvenær
á morgun sagði ég
alfarinn spurði hún
umferðarniðurinn var linnulaus þursaseiður og það var farið að rökkva og ég svaraði öngu og við sátum þögul og það var óðum að rökkva
ég sá að það myndi rigna í kvöld því himinninn var þungbúinn
hættu sagði ég þegar ég sá hana naga nögl á þumli og tók hönd hennar og lét hana á borðið þá ætlaði hún að halda hendi minni en ég losaði hana
hún leit á mig það var gult raf sindrandi í augum hennar og svo mikill litur að ....
ég horfði í gaupnir mér svo kveikti ég í pípu minni og hallaði mér aftur í sætinu með reykinn að hlífa mér og við horfðum á þetta kvöld verða til í París
umferðin buldi látlaust og það var enginn friður og

(s. 89)