Bréf frá borg dulbúinna storma

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2013
Flokkur: 

Birtist í 1. tbl. tímaritsins 1005.

Úr Bréfum frá borg dulbúinna storma:

XVI.

Stundum væri ég
til í sambúð með einhverjum eins og þér
þú skilur, einhverjum
sem segði fátt en brosti lymskulega
lengi

ég veit að margir halda að þú sért skrýtinn

það er betra en
ekkert, ég væri til í að færa þér
kaffi á undirskál sem ég hefði hitað fyrst í
örbylgjuofni og hellt svo
með kúnst yfir
skafl af sykri sem skagaði upp
austanmegin á skálinni
því þannig
værir þú vanur að vilja kaffið

ég myndi aldrei sulla niður (finn það
á mér) og þrátt fyrir alla eldspýtustokkana væri aldrei kveikt
á kertum í húsinu okkar
því þú ert svo sjúklega eldhræddur
og þá ekki síður
ég því
fyrir neðan húsið mitt
í árdaga
stóð lengi maður að slá púður í hólka
með grímu fyrir vitum, alltaf
einn maður
í riffluðum flauelsbuxum
að spjalla við sinubrunastrákana
í hverfinu

þeir sváfu með eldspýtur í vösunum

(XXII – XXIV)