Borgin hló

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1958
Flokkur: 


2. útgáfa: Vaka-Helgafell, Reykjavík, 1998.

Úr Borgin hló:

Hörpusláttur

1.
Ég syng um þig borg.
Og gamlar götur horfa í sál mína
og spegla hugsanir mínar og þrá
sem var eins saklaus
og stjarna yfir Betlehem.

Þú talaðir við mig.
Og eggjandi nætur hlógu í fangi þínu
og mislyndir dagar grétu í brjósti þínu
og hvítar stjörnur spegluðust í svörtum augum
og gráum einmana götum,
þegar ég lék á hörpuna og orti sönginn um sjálfan mig.

Og ég horfði í andlit þitt
rjóður af heitri æsku
og ég horfði í götur þínar
ungar nýlagðar götur
með varir votar af tjöru
og þær þrýstu heitum barmi að köldum fótum.

2.
Og ég beið eftir svari:
hvítir mávar brýndu nef sín
á kollótum steini við hafnarvitann
og hrúðurkörlum
á Kolbeinshaus

ó borg:
og þeir þöndu vængi sína
og hann elskaði hana með gulu nefi
og glampa í heitu auga,

svo flaug hún af stað
lengra og lengra
og hann horfði á eftir henni,
þegar skuggi hennar hvarf
inn í hvíta sól.

3.
Ég syng um þig borg og hús foreldra minna
og götu þínar sem liggja inn í hjarta mitt
og binda okkur saman
eins og dauðinn líf og eilífð.
Í brjósti mínu berst hjarta þitt
og ljóð þitt fyllir eyru mín,
þegar þú leikur á hörpuna
við lækjargötur og torg.

(s. 7-8)