Bókasafn Nemos skipstjóra

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993

Um þýðinguna

Kapten Nemos bibliotek eftir Per Olov Enquist í þýðingu Hjartar.

Í litlu þorpi í Norður-Svíþjóð eignast tvær konur sveinbörn sama daginn á sama spítala, en vegna mistaka fer hvorug heim með sitt ,,rétta barn. Þetta veldur engum vandræðum meðan enginn veit af því og látið er kyrrt liggja. En sjálfskipaðir riddarar réttlætisins bíða handan við hornið. Þeir hika ekki við að storka náttúrulögmálunum og fórna hamingju einstaklingsins fyrir sigur Sannleikans og Réttlætisins. Það er upphaf mikils fjölskylduharmleiks og sárrar ástarsögu sem skáldið gerir að yrkisefni sínu.

Úr Bókasafni Nemós skipstjóra

Hún rakst á mig á loftinu þegar ég var búinn að semja allan björgunarlistann.

Ég var búinn að teikna svefnherbegið og hafði etkist ágætlega. Ég hafði haft trélista fyrir reglustriku. Svefnherbergið varð fínt: mælingin rétt, glugginn á réttum stað. Ég hafði verið ansi lengi með litla rúmið sem ég svaf í og dregið var í sundur.

Það var nefnilega ekki hægt að koma almennilega fyrir á teikningunni því sem mestu máli skipti, það er að segja höfðagaflinum innanverðum. Þar hafði gamla lakkið, sem var svo gamalt að kannski var það afi í föðurætt, ef maður má tala um afa í föðurætt, sem hafði borið það á, í lakkinu höfðu sem eðlilegt var myndast loftbólur, það hafði dökknað eða hlaupið í hryggi, svo að verur, tré og skógar komu smám saman í ljós án þess að gaflinn gæti nokkuð gert til þess að leyna því. Fyrst hafði afi í föðurætt lakkað hann, svo hafði hann áreiðanlega mjög lengi verið eins og hann átti að vera. En að lokum höfðu verurnar og trén komið í ljós.

Það var best á sumrin. Þá var bjart alla nóttina, og annaðhvort gat ég látið vera að sofna eða ákveðið að vakna. Mamma svaf þá, og hraut, ég á við Jósefínu Marklund, en það gerði ekkert til.

Ég settist upp við gaflinn og horfði á dýrin. Þau voru öll brún og ósköp viðfelldin, greyin litlu. Það voru mest kettir, maður sá greinilega eyrun, og augun í sumum; en líka fuglar sem þverskáru með vænglínum sínum himininn yfir brúnu dýrunum.

Ekki var alltaf gott að vita hvaða dýr þetta voru. Sum þeirra virtust vera áhyggjufull eða döpur, það voru þrjú fjögur sem ollu mér alvarlegum áhyggjum af því að þau voru svo sorgmædd á svipinn og urðu að harka af sér til þess að tárin færu ekki að streyma úr augnakrókunum. Eitt dýrabarn var náfölt og ef til vill að dauða komið, eins og faðirinn hefði verið drykkfelldur, en annars var óvíst hvað komið hafði fyrir.

(65)