Blokkin á heimsenda

blokkin á heimsenda
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Bókin er skrifuð af þeim Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur.

Dröfn hefur aldrei hitt ömmu sína svo að óvænt ferðalag á afskekktu eyjuna hennar hljómar spennandi. En ferðin verður fljótlega dálítið skrýtin. Hvernig er hægt að þola svona takmarkað samband við umheiminn? Búa allir furðufuglarnir á eyjunni virkilega í einni blokk? Og er mögulegt að einhver í blokkinni vilji Dröfn og fjölskyldu hennar illt?

Blokkin á heimsenda hlaut Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur 2020 og Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka sama ár.

úr bókinni

Ég leitaði einu sinni enn. Ég sótti Krumma niður í Búgarð og setti hann inn í málið. Hann og tvíburarnir tóku að sér að leita í Búgarðinum og allri geymslunni.

Svo tók ég sprettinn út á Tanga. Ég varð að ræða þennan hræðilega grun minn við Ingó áður en ég færi að gubba af hræðslu.

Ég reif upp hurðina og flýtti mér inn þar sem Ingó hamaðist á hjólinu til að hlaða símann sinn. 

Bróðir minn leit upp. "Búin að finna Kappa?"

Ég tvísteig. Mig langaði ekki að segja hvað mig grunaði. "Hérna ... veistu nokkuð hvað var í kjötkássunni í hádeginu?"
Ingó starði á mig og hætti að hjóla. "Ertu að djóka? Trúðu mér, eftir alla vinnuna við að brytja niður efniviðinn í þessa kássu veit ég sko NÁKVÆMLEGA hvað var í henni."

Ég hikaði.

"Ég meina bara ... Veistu hvernig kjöt þetta var eiginlega?"

"Ha?"

Ég settist niður og ruggaði mér fram og til baka. "Sko. Ingó. Ég var bara að pæla. Amma. Hún segir alltaf að enginn eigi að vera hérna nema hann geri meira gagn en hann væri til vandræða. Og ... hérna ... mér finnst alltaf hún horfa sérstaklega mikið á Kappa. Okkur líka, sko, en sérstaklega Kappa. Og hann er enn alveg týndur ..."

Ég beit á vörina. 

Ég gat ekki haldið áfram.

En ég var alveg viss um að amma myndi aldrei láta kjöt fara til spillis. 

Ég myndi, fjandinn hafi það, hálfpartinn treysta henni til að ég mig ef henni þætti ég ekki gera nægt gagn öðruvísi. 

"Láttu ekki eins og bjáni," sagði Ingó en hann hljómaði ekki alveg nógu mikið eins og ég væri bara bjáni. "Haltu áfram að leita. Kannski hefur hann farið upp á Fjall, Og niður að sjónum hinum megin."

Ég leit efins út um opnar dyrnar á hólinn sem eyjarskeggjar kölluðu "Fjall".

Ingó rétti mér afganginn af súkkulaðikexpakkanum. "Hérna. Taktu þetta í nesti og labbaðu annan hring um eyjuna. Ég er viss um að hann kemur í ljós. Ég skal fara upp á Fjall að leita."

Ekki einu sinni súkkulaðikex gat huggað mig núna en ég tók samt við pakkanum og tróð í vasann á úlpunni minni.

Ég gekk hring. Ég leitaði aftur á Búgarðinum með Krumma og geðvond hæna reyndi að bíta mig. Ég leitaði í fjörunni og fékk hjartastopp nokkrum sinnum þegar plasthrúga leit út eins og ljósbrúnn feldur. ÉG kíkti meira að segja niður í Borholuna, þótt það væri stranglega harðbannað samkvæmt skiltinu á hurðinni.

Enginn Kappi.

Gat virkilega verið að amma hefði ...

(s. 126-127)