Blindgata í Kairó

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989

Nagíb Mahfúz: Midaq Alley [á ensku]. 

Úr Blindgötu í Kaíró:

Hamída var á þrítugsaldri, í meðallagi há og grannvaxin. Hörundið var bronslitað og andlitið toginleitt, lýtalaust og frítt. Eftirtektarverðustu sérkenni hennar voru svört, falleg augun, þarsem augasteinar og augnhvítur mynduðu sláandi og aðlaðandi andstæður. En þegar hún herpti fínlegar varirnar og kipraði augun, þá gat runnið á hana svipur skapstyrks og staðfestu sem var mjög ókvenlegur. Skapsmunir hennar voru slíkir að enginn gat látið þá liggja milli hluta, ekki einusinni í Mídaksundi.
 Jafnvel móðir hennar, sem fræg var fyrir rustahátt, gerði það sem í hennar valdi stóð til að forðast að reita hana til reiði. Einn dag þegar þær höfðu verið að rífast hrópaði móðirin til hennar: „Allah mun aldrei finna þér eiginmann; hvaða maður mundi vilja faðma að sér logandi eldibrand einsog þig?“ Við önnur tækifæri hafði hún sagt, að þegar dóttir hennar reiddist yrði hún raunverulega viti sínu fjær, og hún uppnefndi reiðiköst hennar khamsin eftir hinum grimmu og ófyrirsjáanlegu sumarvindum.
 Þráttfyrir allt þótti henni fjarskalega vænt um Hamídu, jafnvel þó hún væri einungis kjörmóðir hennar. Raunveruleg móðir stúlkunnar hafði verið meðeigandi hennar í fyrirtæki sem bjó til og seldi sætar mixtúrur til að fita fólk. Fátækt hennar neyddi hana þegar stundir liðu til að deila íbúðinni í Mídaksundi með Umm Hamídu og þar dó hún meðan dóttir hennar var enn í frumbernsku. Umm Hamída hafði gengið henni í móðurstað og komið henni í umsjá konu kaffihúseigandans Kirsja, sem hafði haft hana á brjósti ásamt syni sínum, Hússein Kirsja, sem var því nokkurskonar fósturbróðir stúlkunnar Hamídu.
 Hún hélt áfram að kemba svart hárið og beið þess, að móðir hennar héldi uppteknum hætti og segði frá heimsókninni og gestinum. Þegar þögnin hafði haldist órofin óvenjulega lengi, sagði hún:
 „Þetta var löng heimsókn. Um hvað voruð þið að tala?“ Móðirin hló hæðnislega og muldraði:
 „Gettu!“
 Áhugi stúlkunnar færðist í aukana og hún spurði:
 „Hún ætlar að hækka húsaleiguna?“
 „Ef hún hefði gert það, þá hefði hún verið borin héðan út af sjúkraliðum! Nei, hún ætlar að lækka húsaleiguna!“
 „Ertu gengin af vitinu?“ hrópaði Hamída.
 „Já, ég er gengin af vitinu. En gettu ...“
 Stúlkan andvarpaði og sagði:
 „Þú ert búin að gera mig úrvinda!“
Umm Hamída hnyklaði brýnnar og kunngerði um leið og hún deplaði öðru auganu:
 „Hennar hátign hefur hug á að ganga í hjónaband!“

(s. 34-35)