Blátt tungl

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Þriðja bókin um Einar blaðamann.

Úr Bláu tungli:

Mér finnst eiginlega stórmerkilegt, segir Ásbjörn, að fleiri deyi á Íslandi af völdum sjálfsvíga en í umferðarslysum. Og sjálfsvíg eru önnur algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna. Þetta kom fram hjá heilbrigðisráðherra á alþingi um daginn.
Hver er sú algengasta? spyr Sigríður.
Slys, svarar Ásbjörn.
Oft er stutt milli slysa og sjálfsvíga, get ég ekki stillt mig um að segja. Bæti svo við: En hvað um ungar konur?
Ásbjörn: Það kom ekki fram hjá heilbrigðisráðherra.
Ég: Jafnréttisbaráttan í reynd.
Undirrótin er auðvitað þunglyndi, segir Ásbjörn. Þetta skammedegisþunglyndi sem herjar á þjóðina á vetrum. Það kom fram hjá ráðherranum að fleiri falla almennt fyrir eigin hendi en í umferðarslysum. Ein sjálfsvígstilraun á dag, hvorki meira né minna.
Ég: Það þarf bara að kynna orkudrykkina betur. Ættum við ekki að birta rannsóknargrein um þá frelsun sem neytendur þeirra finna til?
Nú leggur Sigríður tvær vel snyrtar og naglalakkaðar hendru á fundarborðið, hallar sér fram og segir, ekki beinlínis kuldalega, en alvörugefin: Einar, það er greinilega ekki mikið um að vera í lögreglumálunum núna. En ég tel þessar umræður hafa leitt tvennt í ljós: Annars vegar að Síðsdegisblaðinu beri skylda til að fjalla um skammdegisþunglyndi, mannshvörf og sjálfsvíg og hugsanlegt orsakasamhengi þar á milli. Hins vegar að enginn við þetta borð þurfi meira á því að halda og enginn sé þar af leiðandi betur fallinn til að kynna sér þessi mál og skrifa um þau grein eða greinar en þú.
Ég frýs. Starfssystkin mín líta hvert á annað. Einhver skellir upp úr. Ásbjörn brosir í rauðan kampinn. Ég horfi urrandi í augun á Sigríði sem heldur grafalvarlegri grímunni. Það versta er að ég veit að ég bauð þessu heim. Af hverju get ég aldrei haldið kjafti. Af hverju er mér lífsnauðsyn að slá um mig með aulafyndni?
Þetta er afar áhugaverð hugmynd, glottir Ásbjörn og réttir mér aftur flöskuna með orkudrykknum Atlas.
Öll kinka þau kolli, hvert í kapp við annað og horfa á mig. Ég banda flöskunni frá mér.
Djöfulsinsandskotans.

(s. 22-23)