Blá nótt fram í rauða bítið

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Úr Blárri nótt fram í rauða bítið:

Hann kom hlaupandi að götuhorni og sveigði upp Klapparstíg til að losna úr mannmergðinni og eiga greiðari undankomu. Hvað var nú þetta? Nokkra metra frá götuhorninu stóð opin hurð. Án þess að hugsa sig frekar um, hentist Gissur þar inn, fullviss um að Hrannar mundi hlaupa áfram upp Klapparstíginn, skima þar um og telja eltingarleikinn á enda, þegar hann fyndi hvergi fórnarlamb sitt. Í anddyrinu voru dyr á vinstri hönd lokaðar, en að ofan barst ymur frá tónlist. Gissur stökk upp tréstiga til þess að hann sæist ekki af götunni. Helst varð hann að finna öruggt skjól.
Við dyr uppi á stigapallinum stóð náungi í hvítum stuttermabol sem á var letrað I BLOW og stafirnir að hluta til huldir með mynd af varalituðum kossaförum. Að innan barst taktfastur tölvutrommusláttur einhverrar teknótónlistar.
„Því miður, væni, sagði náunginn í bolnum. „Einkasamkvæmi.
„En ég verð... másaði Gissur andstuttur og gat ekki stunið upp neinu öðru.
Dyravörðurinn mældi hann út með augunum. „Já, ég veit hvernig tilfinning það er. Hann horfði forvitinn á hvernig svitinn bókstaflega spratt fram á andliti Gissurar. Síðan gaf hann eftir og vék frá dyrunum. „Jæja þá, í þetta sinn. Ertu í samtökunum, elskan?
„Já, stundi Gissur upp, um leið og hann smeygði sér inn um gættina, ekki vegna þess að hann hefði hugmynd um hvaða samtök þessi pempíulegi náungi væri að ræða, heldur vegna þess að raddblærinn var þess eðlis að jáyrði myndi fremur veita honum inngöngu. Hann varð að komast í örugga höfn, ef Hrannari skyldi detta í hug að reka inn nefið niðri.

(s. 65-66)