Bestu vinir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1991
Flokkur: 

úr bókinni

Hann lét sem hann heyrði ekki þessa gamansemi, þótti þetta heldur ekkert sniðugt. Benti á vinnukonurnar sem voru enn á fullu spani.
 Afi hans teygði sig í rofa og stöðvaði þær og um leið hljóðnaði hvinurinn í miðstöðinni. Leit svo til hans aftur og brosti nú sama dularfulla brosinu og sat á vörum hans þegar hann var að bjóða honum í bíltúrinn niðri á Hólmi.
 - Ég er að segja þetta í fullri alvöru, Palli minn. Hann er þarna hann pabbi þinn!
 - Pabbi minn?
 - Já.
 - Ruglið í þér!
 - Þetta er satt. Hann er kominn til að hitta þig.
 Hann horfði agndofa á afa sinn sem var ekki vanur að fara með fleipur. Skildi ekki af hverju hann var að þrástagast svona á þessu. Sagði honum sem var að þetta væri ekkert fyndið ef hann héldi það.
 Guðmundur Árnason kom inn í bílinn og lagði hönd á öxl hans.
 - Þetta er pabbi þinn, drengurinn minn. Bjarni Sigurjónsson. Ég er að segja þér alveg satt. Farðu nú til hans. Hann bíður eftir þér.
 - Þú ert að ljúga! Þessi hlunkur er ekkert pabbi minn! Það getur ekki verið!
 Hann leit til mannsins sem átti að vera að bíða eftir honum, átti að vera pabbi hans. Hann var búinn að leggja veiðistöngina frá sér og var að fara úr regnúlpunni.
 Auðvitað þurfti hann ekki að virða hann neitt fyrir sér. Það var svo fráleitt að hann væri skyldur honum.
 Og nú var hann að koma!
 Já, já, kjagaði til þeirra með breitt bros á vörunum. Voru það samantekin ráð hjá þeim að stríða honum?
 Hann reif dyrnar upp og stökk út, búinn að fá meira en nóg af þessari endemis þvælu. Hlustaði ekki á afa sem kallaði á eftir honum, vildi vita hvert hann væri að fara.
 Horfði eitt andartak framan í þennan hallærislega veiðikall að sunnan sem átti að vera pabbi hans og lét hann sjá að honum væri ekkert um hann gefið, gretti sig framan í hann.
 Og tók til fótanna.

(s. 115-6)