Bernskubók

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2011

Um bókina:

Bernskubók byggir Sigurður Pálsson á bernskuárum sínum í Norður-Þingeyjarsýslu en þar bjó hann frá fæðingu til fjórtán ára aldurs þegar hann hóf hefðbundið skólanám í landsprófsdeild Hagaskólans.

Úr Bernskubók:

Orðatiltæki

Kotasæla, gat aldrei munað nafnið á þeirri ágætu landbúnaðarafurð. Hvernig sem ég reyndi. Ég var kannski kominn niður í Sunnubúð að kaupa nokkur atriði, mundi allt nema þetta. Gat ekki munað það.

Kotasæla.

Þetta gerðist ekki einu sinni heldur grunsamlega oft. Ég fór á tímabili að hafa áhyggjur af þessu, hvort ég væri kominn með minnisglöp eða eitthvað enn verra. Einhvern veginn gekk það ekki upp, þetta var greinileg valgleymska. Ég mundi alltaf allt nema kotasælu.

Þá fór ég að svipast um í undirvitundinni, af hverju máði hún stöðugt út orðið kotasæla? Svona rækilega!

Eftir talsverða íhugun komu svörin.

Tvö frekar en eitt.

Í fyrsta lagi á ég erfitt með að tengja sælu við kot, kotbúskap, hokur. Bjartur í Sumarhúsum má borða kotasælu í öll mál fyrir mér, ég afþakka pent þann veislukost. Kotasæla minnir mig á dýrðarljómann sem sumir vinir mínir og jafnaldrar á hippatímanum sáu fyrir sér í afturhvarfi til náttúrunnar. Flytja út í sveit, rækta gulrætur, lifa af landinu, hafa nokkrar geitur.

En það var önnur ástæða sem gerði útslagið.

Það var minningin um andstyggilega flík sem mér var troðið í lengi vel á frumbernskuárum, sá gripur hét kot. Ég hreinlega þoldi það aldrei. Það var sannarlega engin kotasæla hjá mér.

Arnór bróðir minn fékk á tímabili það verkefni að koma mér í föt á morgnana enda fimm árum eldri.

Ég var stundum morgunúfinn og geðstirður, sinnti hvorki hvatningu né blíðmælgi, brjálaðist svo endanlega þegar stóð til að bera mig ofurliði og troða mér í andskotans kotið.

Ekki nóg með að ég væri skapmikill, ég var skelfilega langrækinn. Vesalings Arnór fékk einna harðast að kenna á því. Ég skákaði grimmilega í skjóli minni máttar. Þegar hann var ekki að gera neitt nema verja hendru sínar, þá var hann ávítaður fyrir að níðast á minni máttar.

Hann var og er jafnlyndur og glaðlegur, lítið fyrir leiðindi, reynir yfirleitt að sjá jákvæðar hliðar hlutanna.

Hér og nú, seint og um síðir, verð ég á játa að ég misnotaði aldursmuninn alltaf þegar ég mögulega gat, beitti honum fyrir mig á slóttugan og svívirðilegan hátt, ríghélt í þá samningsstöðu að nú yrðu menn að taka tillit til mín, ég væri minni máttar, ekki mætti fara illa með mig.

En ég þjálfaðist ágætlega í diplómatísku þófi, lærði af reynslunni að það er betra að lenda ekki í fyrirfram töpuðum handalögmálum heldur ná sínu fram með þjarki.

Í þessum efnum varð ég snemma eins og Ísland á alþjóðavettvangi.

(88-9)