Bergljót

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1976
Flokkur: 

Úr Bergljótu:

Gestur kennari gengur brátt fram á gólfið. Hann er eins og sjálfkjörinn til að hefja fyrsta dansinn, enda þessi samkoma haldin honum til heiðurs. Og hann velur Bergljótu til að stíga með sér fram á dansgólfið. Þau þjóta þegar af stað í fjörugum mazúrka. Hann finnur strax, að þennan dans kann hún vel. Hún svífur létt og örugg í fangi hans. Fyrst í stað dansa þau ein á gólfinu, og allra augu beinast að þeim, sérstaklega þó að Gesti Heiðdal. Samfara mikilli glæsimennsku ber kennarinn með sér látbragð þess heimsmanns, sem kann sig í hvaða samkvæmi, sem er. En slíkt er sveitaræskunni hérna nokkuð framandi. Og hvað Bergljót er örugg og ófeimin að dansa við hann, hugsa hinar stúlkurnar, og það er ekki laust við, að þær öfundi hana á þessari stundu. En slíkar hugleiðingar vara ekki lengi. Brátt fer Eyvi af stað og býður í dans þeirri stúlku, sem næst honum situr, og síðan hver pilturinn af öðrum, uns allir bekkir eru auðir og stofugólfið þétt skipað dansandi æskufólki. Láki leikur mazúrkann nokkuð lengi og lofar fólkinu að fá í sig góðan hita og stemningu. Síðan skiptir hann um og leikur hægan vals. Gestur sleppir ekki Bergljótu og nú dansa þau þennan rólega vals. Hann þrýstir henni þéttar að sér en áður, og þau svífa áfram samstillt í dansinum. Undurljúf og þægileg kennd gagntekur þau bæði, og léttir seiðmagnaðir tónar harmonikkunnar tvinnast hrynjandi blóðsins í ungum æðum.

(s. 17)