Beinagrindin

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 

Myndir : Sigrún Eldjárn

Úr Beinagrindinni:

HVAR ER FJÁRSJÓÐSKORTIÐ

Ásgeir og Birna eru í reikningstíma í skólanum. Venjulega finnst Birnu það skemmtilegustu tímarnir, en núna er tíminn alveg ótrúlega lengi að líða. Mínúturnar silast áfram og stundum er einna líkast því að klukkan gangi aftur á bak.
 Loksins, loksins er þó hringt út. Í þetta sinn kjaftar Birna ekkert við hinar stelpurnar í bekknum heldur kemur beint til Ásgeirs. Þau flýta sér heim.
 „Verst að Beini skuli vera svona lengi í skólanum, annars gætum við farið strax að kaupa sjónvarpið,“ segir Birna.
 „Þetta kemur sér svo sem ágætlega fyrir mig, því ég var búinn að lofa mömmu að taka til í herberginu mínu,“ svarar Ásgeir.
 „Þá fer ég bara ein upp í bækistöð BEINAGRINDARINNAR og bíð eftir ykkur. Það er hvort sem er enginn heima hjá mér og ég er með nesti,“ segir Birna. „Á ég ekki að taka fjársjóðskortið með mér?“
 „Jú, það er líklega best,“ segir Ásgeir, „ég er með það hérna í úlpuvasanum.“
 Hann stingur hendinni í vasann en þar er ekkert nema endurskinsmerki. Sama sagan í hinum vasanum. Ásgeir snarstansar og leitar líka í buxnavösunum. 
 „Hvað er að?“ spyr Birna.
 Ásgeir svarar ekki en tekur af sér skólatöskuna, opnar hana og steypir öllu úr henni á gangstéttina. Síðan krýpur hann niður og fer að gramsa í bókunum.
 „Kortið er horfið,“ segir hann loks og lítur á Birnu.
 Birna starir á hann.
 „Ertu búinn að týna kortinu? Ertu brjálaður?!“
 Ásgeir verður skömmustulegur og leitar enn einu sinni í vösum sínum, en án árangurs.
 Þá heyra þau einhvern kalla.
 „Halló! Halló! Krakkar! Eruð þið nokkuð að leita að þessu?“

(s. 64-65)