Barnasaga

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1987

Peter Handke: Kindergeschichte.

Úr Barnasögu:

Það var fyrst nú, þegar allt var fallið í ljúfa löð, að maðurinn sannfærðist um að barnið hans væri bókstaflega á öðru róli en flestir félaganna í hópnum. Án þess að vera beinlínis klossað, var það sífellt í vegi, eða gaf sig að hinum með ofurákafa og lítilsháttar óðagoti eins og oft er um feitlagin börn. En umfram allt er það talsmáti þess (svo algjörlega frír við tilbúna orðakæki fullorðinna) sem aðgreinir það ljósast frá hinum börnunum; hugsanlega talaði það bara af meiri yfirvegun og leitaði lengur að orðunum. Þannig missti það oft af lestinni og hinum börnunum hætti til að hlusta ekki á það. Augngoturnar sem það gefur hinum fullorðna í miðjum leik eru ekki lengur eins tregafullar og áður heldur kímnar og kankvísar. Það væsir ekki um það í félagsskap þessa fólks - en samt er það ekki fólkið þess. Og hinum fullorðna verður á að hugsa: þínir líkar eru til. Þeir eru annars staðar. Það er hin þjóðin, hin sagan. Við erum ekki ein. Einmitt á þessu augnabliki eigum við samleið með hinni þjóðinni á vegferð tímans. Þú verður aldrei eitt þíns liðs. - Og jafnskjótt endurtók hið harmræna sig - og hinn fullorðni tók því jafnvel fegins hendi. Og enda þótt hann væri vitni að því að margir foreldrar byggju börn sín undir baráttuna fram undan, og gæti sett sig í þeirra spor, taldi hann réttast að aðhafast ekkert í þá veru.

(s. 47-48)