Bara ef...

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2014
Flokkur: 

Um bókina:

Bara ef… afmælisbarnið hefði ekki heimtað skilnað fyrir framan alla gestina í óvæntu afmælisveislunni.

Bara ef… hægt væri að segja hinum verðandi föður frá jákvæða óléttuprófinu.

Bara ef… krakkarnir heimtuðu ekki hund, sá gamli væri ekki dottinn í það uppi í bústað og sögusagnir um framhjáhald ekki komnar á kreik.

Bara ef… lífið væri örlítið bærilegra!

Úr Bara ef…:

Ragnar rumskaði við daufa símhringingu en treysti sér ekki til að leita að gemsanum. Hann varð nauðsynlega að fá eitthvað ískalt að drekka, núna strax. Munnhol hans var skrælnað og þurrkurinn náði lengst niður í vélinda. En höfuðið var eins og brothætt egg í skrúfstykki, hann varð að ganga löturhægt svo það splundraðist ekki. Á leiðinni niður stigann þurfti hann þar að auki að ríghalda í handriðið til að missa ekki jafnvægið vegna svima.

Nú mundi hann hvers vegna hann hafði hætt að bragða áfengi. Það voru þessir helvítis timburmenn.

Hann greip tveggja lítra sódavatnsflösku úr yfirfullum ísskápnum og skrönglaðist með hana áleiðis upp í svefnherbergi. Stiginn virtist orðinn bæði lengri og brattari og svitinn bogaði af ragnari þegar hann settist loks uppgefinn á hjónarúmið.

Og enn suðaði síminn, að því er virtist í fatahrúgu á náttborðinu.

Þann sem vildi ná í hann skorti greinilega ekki þolinmæði. En Ragnari lá ekkert á að svara, enda nokkuð ljóst um hvað samtalið myndi snúast, hver svo sem væri á línunni.

Ýmsir komu til greina: Magga, Fífí, Eygló eða annað hvort barnanna sem búsett voru erlendis og höfðu án efa fengið nákvæmar fregnir af uppákomunni í afmælisveislunni. Steini, allramesta uppáhaldið hennar mömmu sinnar, myndi nú láta í sér heyra, ef Ragnar þekkti hann rétt. Kannski var þetta líka einhver úr vinahópnum, einhver sem hafði verið viðstaddur og ætlaði nú að hella sér yfir hann. Það hafði ekki leikið nokkur vafi á með hverjum gestirnir héldu í þessu einkamáli sem þeir höfðu óvænt blandast inn í. Magga fékk faðmlög og samúðaraugnaráð, hann var vondi karlinn.

Kolsýrt vatn sprautaðist yfir lakið og sængina þegar Ragnar skrúfaði tappann af. En hann kærði sig kollóttan. Smábleyta var léttvæg miðað við annað sem hann átti við að glíma þessa stundina.

(24-5)