Bak við bláu augun

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1992
Flokkur: 

Úr Bak við bláu augun:

„Ungur maður lagður inn vegna ástsýki.“ Kamilla las fyrirsögnina fyrst í hljóði en svo upphátt. Það sem vakti athygli hennar var að letrið í þessari frétt var töluvert frábrugðið letrinu á baksíðunni. Bláu augun hennar stækkuðu um helming þegar hún byrjaði á fréttinni og undrun hennar jókst eftir því sem hún las lengra. „Ungur, myndarlegur og yfirmáta hress strákur var lagður inn á sjúkrahús í gærkveldi eftir að hafa gengið berfættur niður Laugarveginn og sungið ástarsöngva. Hann sagðist heita Nikki og vera nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík. Annað fékkst hann ekki til þess að segja og var hann lagður inn á Borgarspítalann til aðhlynningar. Frekari rannsók á honum leiddi í ljós að hann á það á hættu að missa tærnar vegna kuls. Lögreglan gat með engu móti gefið skýringu á háttalagi piltsins en þeir læknar, sem rannsökuðu hann, töldu líklegt að hann væri haldinn ástsýki. Nikki telst því fyrsti ástsjúki einstaklingurinn sem lagður er inn á Borgarspítalann. Laust fyrir klukkan átta í morgun, rétt áður en blaðið fór í prentun, tjáði hann læknum spítalans að það eina, sem fengi hann til þess að líta glaðan dag að nýju, væri það að hann fengi að hitta stúlkuna sem hann þráði af öllu hjarta. Stúlkuna með bláu augun. Nikki sagði við tíðindamann DV í morgun að hann myndi bíða stúlkunnar í kvöld á Kaffihúsinu Krútt í Austurstræti og vonast til þess að hún léti sjá sig um klukkan níu.“ Kamilla fann að hún roðnaði þegar hún las þetta, ekki vegna þess að hún tryði fréttinni heldur vegna þess að hún vissi að þetta voru skilaboð til hennar. Nikki hafði greinilega málað yfir einhverja baksíðufrétt, sett blaðið í ritvél og skrifað nýja frétt í staðinn. Síðan hafði hann væntanlega borgað blaðburðarstráknum í hverfinu til þess að færa Kamillu blaðið. Það yljaði henni um hjartaræturnar að lesa fréttina aftur og henni fannst allt í einu að hún sjálf væri meira virði en áður.

(s. 85-86)