Augu þín sáu mig

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 


Um bókina:

Augu þín sáu mig gerist í smáþorpinu Kükenstadt í neðra Saxlandi. Þar birtist skyndilega hungraður flóttamaður með leirklump í hattöskju. Flóttamanninum er komið fyrir á gistiheimili og með hjálp þjónustustúlkunnar Marie-Sophie mótar hann barn úr leirklumpinum og saman gefa þau því líf. 

Sjálfstætt framhald Augu þín sáu mig er skáldsagan Með titrandi tár (2001).

Úr Augu þín sáu mig:

„Þjófurinn, sem Marie-Sophie hafði nú skilist að var alls ekki þjófur heldur sárþjáður flóttamaður, beið hjúkrunarkonu sinnar í herbergi tuttuguogþrjú á annarri hæð gistiheimilisins.
 Hann sat kviknakinn í þvottabala úti undir glugganum, tjöldin voru dregin fyrir, en í rökkrinu sá stúlkan vesælustu mannveru sem hún hafði augum litið: Höfuðið lá fram á bringuna, hendurnar námu lífvana við gólfið, fótleggirnir studdust hvor við annan á hnjám sem voru þrútin eins og skemmd granatepli.
- Hvernig lýst þér svo á gripinn?
Innhaberínan ýtti Marie-Sophie á undan sér inn í herbergið og lokaði á eftir
þeim:
- Það var ekki auðvelt að koma honum úr lörfunum skal ég segja þér, nærurnar og sokkarnir voru gróin við hann.
Marie-Sophie reyndi að horfa ekki á mannvesalinginn í balanum: Rauðir
flekkir þöktu bakið og handleggina, kviðurinn var þaninn eins og á ungabarni. Hann skalf. Stúlkan tók fyrir munninn: Hvað var konan eiginlega að hugsa? Að láta hann sitja svona berrassaðan í tómum balanum? Hún þreif ábreiðuna af rúminu og brá henni um striplinginn – þannig sást líka minna af honum.
- Þá er hann þinn! Strákurinn kemur með vatnið, hann setur það við dyrnar og bankar, hingað á hann ekkert erindi!
Innhaberínan klappaði saman höndum og snerist á hæli.
Marie-Sophie kinkaði kolli og vafði ábreiðunni þéttar að vesalingnum: Guð,
hvað hann var horaður, herðablöðin og hryggjarliðirnir sköguðu upp úr bakinu, eins og vængir, eins og tennur í sög. Hún leit á innhaberínuna og hristi höfuðið ráðalaus: Hvernig datt þeim í hug að setja þetta lík í hendurnar á henni?
 Innhaberínan lét sem hún skildi ekki svip stúlkunnar:
- Þegar þú ert búin þá flyturðu hann þangað. . .
Hún benti á ljósan blett, ekki stærri en augastein, í veggfóðrinu yfir rúminu.
- Í prestaklefann?
- Ég setti hreint á og þar á að vera allt til alls. En ef þig vanhagar um
eitthvað þá hringirðu bjöllunni . . .
 Innhaberínan opnaði dyrnar og gægðist fram á ganginn, en hallaði hurðinni aftur þegar heyrðist til mannaferða í stiganum.
 Utan af ganginum barst eintóna raus gamalmennis: Herra Tomas Hasearsch bað Drottin allsherjar að kalla sig burt af þessum auma stað þar sem gðræknir menn voru sviknir um sætabrauðskarlinn sinn á hvíldardaginn. Þær hlustuðu á hann bisa við lásinn á herbergi sínu; eftir eilífðartíma heyrðust dyr opnast og hruð lögð að stöfum.
 En nú virtist inhaberínan ekki vera á förum:
- Hann situr örugglega fyrir mér helvítis karlinn, þetta finnur á sér hvað er að gerast, alið upp hérna á heimilinu. Fannst þér hann loka almennilega á eftir sér?
Vesalingurinn hnerraði.
 Marie-Sophie faðmaði hann fastar að sér og sendi innhaberínunni banvænt augnaráð: Ef manneskjan var með afskiptaleysi sínu að sýna henni fram á að hún kynni ekkert fyrir sér í umönnun vesalinga, þá var það komið til skila.
 Innhaberínan kipraði augun. Hún virti parið undir glugganum fyrir sér góða stund, svo hnussaði í henni:
- Þú ert ung, þú heldur að þú vitir allt, en ég myndi passa mig á honum ef ég væri þú. Hann er ekki eins aumur og hann þykist vera – ég ætlaði aldrei að ná þessum pakkaræfli úr höndunum á honum.
Hún benti með vinstri fætinum á hattöskjuna sem lá á gólfinu hjá öðrum jarðneskum eigum vesalingsins, fatadruslum og ferðatösku sem rúmaði greinilega ekki margt.
 Og með það strunsaði innhaberínan út og skellti á eftir sér.
 En stúlkan Marie-Sophie sat eftir: Í herbergi tuttuguogþrjú. Á annarri hæð gistiheimilisins Vrieslander. Í smábænum Kükenstadt. Við ósa Saxelfar. Í Neðra-Saxlandi. Ein með hálfstrípuðum manni. Fyrir stundu hafði hún ætlað að rota hann með kökukefli, nú átti hún að hjúkra honum: Í heiminum geisaði stríð.”

(s. 43 - 46)