Auður á Heiði

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1974
Flokkur: 

Úr Auði á Heiði:

Braggaævi Rás viðburðanna heldur stöðugt áfram. Ábyrgðarkennd sú, er vaknaði af dvala í brjósti Hreins, meðan á bústaðaskiptunum stóð, fjarar brátt út og fellur í dá. Ginnandi freistingar ná yfirráðum að nýju, og okið verður enn þyngra en áður. Hann finnur brátt til þess, hve bragginn er ömurleg vistarvera og ólík þeim góðu og þægilegu húsakynnum, sem hann hefir einungis átt að venjast frá upphafi ævi sinnar, og viðbrigðin eru því svo mikil, að hann á erfitt með að sætta sig við þau. En hann hefir engan að sakast nema sjálfan sig, og það finnur hann einnig vel. Hreinn er nú oftar að heiman en nokkru sinni áður, og eyðir bæði tíma og fjármunum sínum í miður góðum félagsskap á ýmsum skemmtistöðum. En Auður bíður hans ein heima með börnin í óvistlegum bragganum þeirra, og vissulega er barátta hennar hörð. Úti er bjartur haustdagur. Auður hefir klætt börnin og komið þeim út í sólskinið. Og þau eru að leik á örlitlum grasbletti, sem hún hefir sjálf afgirt handa þeim við suðurhlið braggans, og þar una þau sér vel. En Auður vinnur inni af kappi og þvær stóran þvott af börnunum. Hreinn fór til vinnu sinnar á skrifstofunni á venjulegum tíma þennan morgun, og Auður á ekki von á honum heim aftur fyrr en undir kvöld. Djúp haustkyrrðin er rík af ró og friði, og Auður nýtur þess í einverunni og starfið leikur í höndum hennar. En skyndilega er kyrrðin rofin. Braggahurðinni er hrundið upp og Hreinn snarast inn til konu sinnar, fasmikill, en dapur á svip og nemur staðar hjá henni. Auður hættir starfi sínu og lítur undrandi á mann sinn, en segir síðan stillilega. - Hversvegna ertu kominn heim á þessum tíma, góði minn? Hefir nokkuð óvænt komið fyrir? Hreinn lætur nú fallast á stól við eldhúsborðið og andvarpar þunglega: - Já, og það er bezt að ég segi þér strax sannleikann. Ég er orðinn atvinnulaus, segir hann hljómlausri röddu.

(s. 76-7)