Áttablaðarósin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2010
Flokkur: 

Af bókarkápu:

Áttablaðarósin er pólitískur tryllir um samband Íslands við alþjóðleg stórfyrirtæki og söguleg spennusögu um hið stutta bil á milli fortíðar og framtíðar, lífs og dauða.

Úr Áttablaðarósinni

Fréttin af morðtilrauninni var fljót að berast helstu fréttaveitum landsins. Sagt var frá því að ókunnugur maður hefði ráðist á Egil Brandt Einarsson er hann var í óopinberri heimsókn í Hellisheiðarvirkjun. Að maðurinn hefði reynt að hrinda Agli niður í opinn dauðann. Að jafnvel þótt svæðinu hefði verið lokað hefði manninum tekist að sleppa án þess að tangur eða tetur fyndist af honum. Minnst var á mikla þoku á svæðinu sem hjálpaði við flóttann.
En þetta var ekki eina frétt dagsins. Sú óstaðfesta fregn lak út að eftir morðtilræðið hefði rannsóknarlögreglan hætt að rannsaka dauða Mikaels Aroz sem slys, heldur morðmál. Voru tengsl Egils við orkuráðstefnuna sögð vega þar þungt. Einnig höfðu nýjar vísbendingar komið fram, svo sem frá bílstjóra sem sá svartklæddan mann á gangi nærri Hvalfirði skömmu eftir meint bílslys.

Á meðan fjölmiðlar héldu sig við staðreyndir málsins fóru einstaklingar hamförum í netheimum og settu fram sínar kenningar, öðru nafni samsæriskenningar. Tvær þóttu áhugaverðastar. Önnur var á þá leið að anarkistar væru að verki. Það útskýrði meðal annars svartklædda manninn. Meginrökin voru þau að anarkistar væru hörðustu mótmælendur einkavæðingar. Minnst var á upphaf anarkisma á 19. öld þegar hreyfingin var mjög herská og myrti háttsetta menn, þar á meðal einn Bandaríkjaforseta. Var talið hugsanlegt að íslenskir anarkistar (í samstarfi við erlenda) væru að endurvekja róttæknina sem viðbrögð við árásargirni nútímakapítalískra stórfyrirtækja.

(bls. 126-127)