Ástir samlyndra hjóna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1967
Flokkur: 

2. útg. endurskoðuð, Reykjavík : Forlagið, 1989.

Úr Ástum samlyndra hjóna:

... engin stórmerki; enginn eldur í Öskju; hvorki Heklu- né Kötlugos; ekkert nýtt Surtseyjargos; engar nýjar gjafabókaútgáfur eða þjóðleg kvikmyndalist um fræg, útkulnuð eldfjöll og skáld. Um langan aldur hafði enginn Íslendingur getið sér mikinn orðstýr erlendis. Leiði og drungi hvíldi yfir þjóð, sem var jafnvel orðin leið á leiða og víni, þótt hún héldi áfram þeim þrjózka vana að koma árlega saman í júní og minnast fornra frægðar daga, þegar náttúruöflin sáu henni fyrir andlegum þörfum: meðan hægt var að fljúga í góðu skyggni til að skoða Heklugos, miðnætursól og hafís, eld í Öskju, gos í Surtsey, hlaup í Grímsvötnum; en ef allt annað brást, þá hljóp Katla í skarðið og gaus af veikum mætti. Ó, gullöld eldgosa! - þrá landsmanna eftir gosum, stórum og ennþá stærri gosum, var það heit og sterk, að hugarafl lyfti eldey úr sæ: Surtsey. Og allir höfðu nóg að starfa við að senda vinum erlendis nýrri og fullkomnari póstkort af eldgosum. Nú var sú gullöld liðin, en gullaldarbókmkenntir hennar lifðu. Í London-París-New York sátu Íslandsvinir á gangstéttarkaffihúsum og lásu Heklubókina, Öskjubókina, Surtseyjarbókina og Vatnajökulsbókina frá sér numdir af hrifningu: Eldgjá: Meginhvísl hraunstraumsins stefnir suður. Á miðri mynd sést hvar hraunelfan vellur fram.

En nokkra hríð höfðu ýmsir smáatburðir svifið inn í gufuhvolf þjóðarinnar eins og loftsteinar, þó illmögulegt væri að reikna nákvæmlega hvar nýjum stórviðburði mundi slá niður; en að því hlaut að reka. Mörg skáld höfðu fyrirfram ort um hann kvæði, og bækur um atburðinn biðu þess hjá útgefendum, að atburðurinn gerðist.

Þegar að því rak hafði hjónaband Sveins og Katrínar staðið óslitið, með nokkrum meinlausum frávikum, í tæpan aldarfjórðung. Um og eftir hjónavígsluna tengdi girnd líkamans þau böndum, síðan afleiðing hennar: börnin. En tæplega fertug áttu hjónin fátt sameiginlegt annað en húseign og örlitla bankainnistæðu, sem duldi kynþreytuna hjá báðum. Hún sagði við hann á kvöldin: Guð veit ég væri fyrir löngu orðin staðuppgefin í þessu víti, strandaði ekki allt á lúshægum uppvexti barnanna. Hann svaraði engu, en hugsaði: hreyfi ég hönd eða fót þá er mér hús og innistæða töpuð. Af þessum ástæðum kaus Sveinn að þola óþolandi sið Katrínar að rjúka að heiman hvenær sem þeim sinnaðist.

(s. 116-117)