Ástir og hetjudáð

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1970
Flokkur: 

Úr Ástir og hetjudáð:

Ásgerður hefir lokið störfum í búðinni og gengur inn í skrifstofu föðurs síns með reikninga og önnur skjöl, sem henni ber að skila að liðnum starfsdegi. En þar sem faðir hennar er enn ókominn, kemur hún þessu fyrir í öruggri geymslu, en í sömu svifum birtist faðir hennar í dyrunum. - Sæl, Ásgerður mín, segir hann þýðum rómi, um leið og hann gengur inn fyrir, en lætur svo fallast á stól við skrifborð sitt og andvarpar þreytulega. - Sæll, pabbi minn, svarar Ásgerður með óstyrkri röddu, sem hún ræður ekki við. – Ó, hve ég er fegin að sjá þig. Hvað er að frétta af bátunum? - Svanur kom að landi heill á húfi nokkru eftir að ég kom niður að höfninni í dag, en Sæljónið sendi út um svipað leyti neyðarskeyti þess efnis, að báturinn væri með bilaða vél hér einhvers staðar úti fyrir brimgarðinum og gæti enga björg sér veitt. Og nú er Svanur farinn til þess að reyna að bjarga skipshöfninni á Sæljóninu. - Farinn út aftur í þessu voða veðri, roki og brimróti! Ásgerður náfölnar. – Af hverju var minnsti báturinn sendur til þess að bjarga, en ekki einhver hinna stærri? - Af þeirri einföldu ástæðu, að skipstjórinn á minnsta bátnum gaf sig einn fram til fararinnar af skipstjórunum hér í Stóravogi, og síðan skipshöfn hans öll. - Hann hlýtur að vera sönn hetja! - Já, Tryggvi Heiðar hefir sýnt það á þessum degi, að hann ber nafn með réttu. - En ef hann nú ferst og kemur aldrei aftur? - Þá fellur hann með sæmd. - Ó, Guð minn góður! Ásgerður grípur báðum höndum yfir stólbakið hjá föður sínum til þess að leita sér stuðnings, og á þessari stundu verður henni það ljóst, að hún elskar skipstjórann á Svaninum á þann hátt, sem kona ann manni heitast, og nú er hann einhvers staðar úti á hafi í brimrótinu, í bráðri lífshættu. Hún ræður ekki lengur tilfinningum sínum. Ásgerður hallar höfði að öxl föður síns og brestur í þungan grát. Þorfinni bregður eilítið, en segir ekkert í fyrstu, heldur tekur dóttur sína í fang sér, eins og þegar hún var lítil telpa og flýði til hans með raunir sínar. Hann þrýstir henni ástúðlega að sér og spyr hana þýðlega: - Hvað amar að þér, vina mín? - Ég er svo hrædd um að Svanur komi aldrei aftur, hvíslar Ásgerður í barnslegri einlægni og skelfur af angist.

(s. 72-73)