Ást og hatur

Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1960
Flokkur: 

Úr Ást og hatri:

Kristín getur ekki staðið lengur aðgerðalaus. Hún snarast ofan af danspallinum og hleypur heim að réttinni. Atli er þar og dregur fé sitt af miklu kappi. Kristín nemur staðar við réttardyrnar og kallar hátt á mann sinn. Atli heyrir kall hennar, og honum er þegar ljóst af raddblæ konu sinnar, að eitthvað óvænt hafi nú komið fyrir. Hann sleppir þegar kindinni, sem hann er nýbúinn að handsama og gengur til Kristínar. Hún segir formálalaust um leið og Atli kemur að réttardyrunum, og rödd hennar skelfur af reiði: - Farðu tafarlaust upp að danspallinum og skipaðu Jónatan að koma hingað á stundinni til að hjálpa þér við réttarstörfin. - Nei, hann er nýfarinn héðan, og ég gaf honum frí um stund. - Það hefði betur verið ógert. - Hvað hefur komið fyrir þig, kona? - Hann er að dansa við stelpuflagðið í Austurhlíð og virðist ekki sjá neitt nema hana. Svo, - fann hann nú enga álitlegri til að dansa við, - þá er honum þarfara að draga með mér rollurnar í réttinni heldur en faðma hana. – En af hverju afstýrðirðu ekki að þau dönsuðu saman? - Það hefði ég tafarlaust gert, hefðu þau verið tvö ein á pallinum, en það hefði líklega vakið óþægilegt umtal, hefði ég farið að banna Jónatan að dansa við stelpuflagðið. Farðu strax og skipaðu stráknum að koma hingað tafarlaust og hjálpa þér við fjárdráttinn. Það tekur enginn til þess! Atli hlýðir skipun konu sinnar og gengur upp að danspallinum, en Kristín fer inn í veitingatjaldið. Þaðan ætlar hún svo að fylgjast með ferðum þeirra feðganna.

(s. 31-32)