Arfur hins liðna

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1989


Mary Stewart: Thornyhold.

Úr Arfi hins liðna:

Þegar ég var búin að baða mig og klæða, höfðu áhrif draumsins rénað, eins og títt er með drauma, og þær hugmyndir sem hann hafði kveikt með mér teknar að dofna enn meir. Áður en ég bjó mér til morgunverð, hleypti ég Brandi út um eldhúsdyrnar (sem enn voru harðlæstar), og fyllti svo leirkönnu af vatni og bar hana upp á háaloftið.
Ég opnaði hurðina varlega og fór inn. Það voru tvær dúfur á loftinu. Önnur var vinkona mín frá því daginn áður og sú var önnum kafin við að gogga í sig kornið á gólfinu. En uppi á gluggasyllunni sat ný dúfa, á litinn eins og mexíkanskur ópall. Lágt kurr barst neðan úr hálsi hennar og hún tvísteig eins og hún væri taugaóstyrk. Ég dreifði nokkrum handfyllum af korni yfir gólfið og beygði mig niður til að fylla vatnsfötuna. Blágrá dúfan flaug rakleiðis niður og fór að drekka.
Þá sá ég hringinn á fæti hennar.
Mjúkum höndum og varfærnum handsamaði ég fuglinn. Hann gerði enga tilraun til að komast undan. Mér tókst að losa örmjóan hringinn. Að svo búnu setti ég fuglinn aftur niður og leyfði honum að næra sig.
Yfir við gluggann fletti ég sundur þunnum bréfmiðanum. Á hann var prentað smáum bókstöfum: VELKOMIN VINA MÍN. ÞÍN FRÆNKA GEILLIS

(s. 86)