Ár bréfberans

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Ári bréfberans:

En þá um slysið sjálft:

Ég lenti nokkurn veginn á hægri hliðinni á vélarhlífinni (japanskur 4x4 pallbíll, númerið KR 902), með höfuðið eilítið á undan. Þar sem ég bar fyrir mig hægri handlegginn (ekki ósvipað súperman á flugi) líkt og ég væri að reyna verjast fallinu (dálítið kómískt finnst mér þar sem fallið var rúmir 8 metrar!) fór handleggurinn inn um framrúðuna og tvíbrotnaði milli olnboga og úlnliðs (undir venjulegum kringumstæðum eiga slíkar rúður ekki að brotna, mér skilst að einhvers konar filma úr sterku plastefni hafi verið í glerinu, en í þessu tilfelli var handleggurinn beinn og stífur og átti tiltölulega greiða leið í gegnum glerið). Handleggurinn skarst illa, alveg frá fingrum og upp í holhöndina, en engar stórar æðar fóru í sundur. Sporin virtust óteljandi þegar þeir fjarlægðu saumana. Axlarliðurinn fór mjög illa og hægra viðbeinið hrökk í sundur.
Höndin var náttúrlega í steik og mikið verk að tjasla henni saman, sögðu læknarnir. Í handarbakinu brotnuðu fjögur bein, þumallinn fór úr liði, vísifingur og langatöng fóru í mask en fremsta kjúka baugfingurs skarst af ásamt litlafingri. Það kom víst ekki í ljós fyrr en farið var að hugar betur að ástandi mínu í sjúkrabílnum á leiðinni á sjúkrahúsið. Einn vinnufélaginn hafði vafið skyrtunni sinni um höndina á mér en gætti þess ekki að telja fingurna. Leitað var á slysstaðnum en ekkert fannst. Ég reikna með að þessir hlutar af mér hafi traðkast ofan í sandhrúguna hjá steypuvélinni.
Eins og þá hafi verið byrjað að jarða mig.
Læknarnir sem gerðu að sárum mínum botnuðu ekkert í því hversu vel ég slapp frá þessu. Og það vakti furðu að ég skyldi yfirleitt hafa lifað fallið af.
KRAFTAVERK AÐ MAÐURINN SKULI LIFA hljóðaði fyrirsögnin í einu blaðanna og í öðru stóð: ÓTRÚLEG HEPPNI! Í undirfyrirsögn stóð síðan þetta. UNGUR MAÐUR FÉLL 13 METRA OFAN Á BÍL OG MISSTI AÐEINS TVO FINGUR!
(Úrklippan sem Leifur var að veifa framan í bréfberana seinna. 13 metrarnir eru auðvitað þessi dæmigerða ónákvæmni sem virðist vera lögmál í blaðamennsku.)
Furðulegast af öllu var að ég skyldi ekki hálsbrotna þegar höfuðið skall á vélarhlífinni. Útskýringin sem læknarnir sættust á var að hægri höndin hefði þrátt fyrir allt tekið af mér versta fallið og breytt stöðu líkamans þannig að öxlin hlífði hálsinum.
Sprungurnar tvær sem mynduðust í höfuðkúpunni ná frá hægra eyra og langleiðina upp á hvirfilinn. Á röntgenmyndinni sem hangir yfir höfðalaginu á rúminu mínu (Ólafur stalst til að gefa mér hana eftir að ég hafði nauðað í honum í nokkra daga) sést hvernig þær mynda eins og tvær hliðar á þríhyrningi þar sem þriðja hliðin markast af línunni frá hvirfli og niður á enni.
Flipi af höfuðleðrinu flettist af og þurfti tuttugu og þrjú spor til að sauma hann á sinn stað. Hvert einasta hár var rakað burt af höfði mínu þannig að ég leit út eins og aðalpersóna í gamalli svarthvítri hryllingsmynd sem ég sá einhvern tíma í sjónvarpinu. Boris Karloff. Vinstri handleggur svo og báðir fætur sluppu óbrotnir. 
Innvortis meiðsl voru óveruleg, smávegis blæðing í brjóstholi vegna þriggja brotinna rifja.
Dvöl mín á sjúkrahúsinu náði sléttum sex vikum.

(s. 70-71)